Tengist frekar flekahreyfingum en kvikuhreyfingum

Rauðu punktarnir á myndinni hér að ofan sýna upptök yfirfarinna …
Rauðu punktarnir á myndinni hér að ofan sýna upptök yfirfarinna skjálfta frá því á miðnætti, 19. febrúar. Grænu punktarnir sýna upptök skjálfta frá byrjun janúar 2018. Skjálftar yfir 4 stig eru sýndir með svörtum stjörnum og hvíta stjarnan sýnir upptök M5,2 skjálftans. Svarthvíti boltinn sýnir brotlausn hans, siggengi. Gráu punktarnir tákna skjálfta á tímabilinu 1994-2017. Brúnu strikalínurnar sýna Húsavíkurmisgengið og svörtu örvarnar sýna hreyfingarstefnuna um Húsavíkur-Flateyjarmisgengið (HFF). Svörtu þríhyrningarnir sýna jarðskjálftamælistöðvar Veðurstofunnar. Kort/Veðurstofa Íslands

Upptök stóru jarðskjálftanna sem urðu við Grímsey í morgun voru á svonefndu Grímseyjarbelti, norðarlega í Skjálfandadjúpi, og á 10 km dýpi. Þar eru skjálftahrinur algengar. Hrinur af svipaðri stærð og þessi urðu til dæmis í maí og september 1969, um jólaleytið 1980, í september 1988 og í apríl 2013.

Veðurstofan segir ennfremur, að ekki hafi greinst skjálftavirkni sem líkist þeirri sem þekkt er í tengslum við kvikuhreyfingar. 

Þetta kemur fram í yfirliti frá Veðurstofu Íslands.

Eins og fram hefur komið, varð skjálfti af stærð 5,2 kl. 05:38 í morgun, með upptök um 14 km ANA af Grímsey. Skjálftinn fannst hann vel víða um norðanvert landið.

Mesta hrina á svæðinu frá 2013

Fjórir aðrir skjálftar af stærð M4-4,5 mældust einnig í nótt og í morgun. 

„Upptök skjálftanna voru á svonefndu Grímseyjarbelti, norðarlega í Skjálftandadjúpi, og á um 10 km dýpi.  Brotlausn stærsta skjálftans bendir til þess að upptök hans séu á  á norðlægri siggengissprungu og sé því tengdur gliðnun í jarðskorpunni. Jarðskjálftarnir eru hluti af hrinu sem hefur staðið frá lokum janúar og nær óslitið frá 14. febrúar. Þetta er mesta skjálftahrina á þessu svæði síðan í apríl 2013 þegar kröftug hrina varð í kjölfar skjálfta af stærðinni 5,5 á svipuðum slóðum,“ segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Jarðskjálftavirknin sé frekar tengd flekahreyfingum á flekaskilum

Þar segir ennfremur, að skjálftahrinur sé algengar á þessu skjálftabelti.

„Hrinur af svipaðri stærð og þessi urðu til dæmis í maí og september 1969, um jólaleytið 1980, í september 1988 og í apríl 2013. Auk skjálftavirkninnar er Grímseyjarbeltið eldvirkt og því eðlilegt að spurt sé hvort skjálftavirknin nú tengist kvikuhreyfingum í jarðskorpunni. Skjálftavirknin er sunnarlega í neðansjávareldstöðvakerfi sem kennt er við Nafir. Ekki hefur þó greinst skjálftavirkni sem líkist þeirri sem þekkt er í tengslum við kvikuhreyfingar. Samfelldar GPS-mælingar í Grímsey sýna heldur ekki mælanlega aflögun tengda þessari hrinu sem bendir til að jarðskjálftavirknin sé frekar tengd flekahreyfingum á flekaskilunum í Tjörnesbrotabeltin,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert