Tveggja sólarhringa seinkun frá París

Flug Icelandair frá París til Keflavíkur er á áætlun á …
Flug Icelandair frá París til Keflavíkur er á áætlun á morgun, um tveimur sólarhringum á eftir áætlun. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Tveggja sólarhringa seinkun er orðin á flugi Icelandair frá París til Keflavíkur. Vél sem átti að fljúga frá París til Keflavíkur um hádegisbil í gær er á áætlun um hádegi á morgun en verulegar tafir hafa orðið á viðgerð vélarinnar. Þetta staðfestir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. Bilunin hefur áhrif á á annað hundrað farþega.

Einn flugfarþeganna sem ekki vill láta nafns síns getið segir í samtali við mbl.is að allir flugfarþegarnir hafi verið komnir um borð í vélina um hádegi í gær þegar bilun kom upp. Hann segir farþegana hafa verið um borð í tvo og hálfan tíma áður en ákveðið var að stefna öllum aftur í flugstöðina á meðan viðgerð yrði lokið. „Okkur var sagt að viðgerðin tæki vonandi ekki meira en klukkutíma,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Nokkru síðar kom í ljós að fluginu hefði verið aflýst og að Icelandair kæmi öllum fyrir á hóteli. Tók þá við tveggja tíma bið eftir hótel-ávísun, segir flugfarþeginn, og rúmir tveir tímar til viðbótar eftir töskunum. „Í heildina var þetta tólf tíma viðvera á flugvellinum í gær,“ segir hann.

Til stóð að vélin færi í dag, rúmum sólarhring á eftir áætlun, en farþegar vélarinnar fengu í morgun meldingu með SMS-i um að fluginu hefði verið seinkað til 19. febrúar. Farþegarnir fóru hins vegar fýluferð þegar í ljós kom að viðgerð vélarinnar var enn ólokið og öllum snúið við aftur á hótelið og þeim tilkynnt að fluginu væri frestað til klukkan ellefu á morgun.

Flugvirkjar flugu til Parísar í dag með varahluti

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. mbl.is/Styrmir Kári

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að líklega hafi á annað hundrað farþegar orðið fyrir óþægindum vegna bilunarinnar. Einhverjum farþegum hafi verið komið í önnur flug, sér í lagi farþegum sem voru á leið til Bandaríkjanna en hugðust millilenda á Íslandi.

„Svona lánleysi er sem betur fer fátítt en þetta er skiljanlega mjög óþægilegt fyrir farþegana,“ segir Guðjón.

„Það kom fram bilun við brottför í gær og viðgerð tókst ekki þá. Svo fóru flugvirkjar út í dag með varahluti. Sú viðgerð dróst aftur á langinn og tókst ekki fyrir næturlokun flugvallarins,“ segir Guðjón. Spurður hvort viðgerð sé lokið segir Guðjón svo ekki vera en segir menn mjög bjartsýna á að henni ljúki strax í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert