Vilja aukið frelsi á leigubílamarkaði

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar. Ljósmynd/Aðsend

Afnema þarf hámarksfjölda leigubílaleyfa á Íslandi og fækka kvöðum fyrir veitingu slíkra leyfa. Þetta sagði Hanna Katrín Friðriksson þingmaður í umræðum um frelsi á leigubílamarkaði á Alþingi fyrr í dag. Hanna Katrín er flutningsmaður þingsályktunartillögu um frelsi á leigubílamarkaði en hún segir fákeppni til þess fallna að þrýsta upp verðlagi og stuðla að skorti á þjónustu á álagstímum.

Jón Gunnarsson, fyrrverandi sveitarstjórnar- og samgönguráðherra.
Jón Gunnarsson, fyrrverandi sveitarstjórnar- og samgönguráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Gunnarsson, fyrrverandi sveitarstjórna- og samgönguráðherra, sagði í ræðu sinni að hann hefði skipað starfshóp síðastliðið haust sem væri að störfum og skilar frá sér niðurstöðum í vor. „Það þarf að vanda þennan undirbúning og fara vel ofan í þetta mál. Það er því tilgangslítið að leggja fram þessa þingsályktunartillögu á meðan málið er í vinnslu, og var sett fram af ríkisstjórn sem hún [Hanna Katrín] var aðili að,“ sagði Jón Gunnarsson.

Sigurður Ingi Jóhannesson samgönguráðherra benti einnig á að starfshópur væri þegar að störfum og væri m.a. að skoða hvaða breytingar þurfi að gera til að regluverkið um leigubílamarkað standist EES-samninginn en eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við regluverk í kringum leigubílaakstur í Noregi sem að sögn Sigurðar Inga er mjög áþekkt regluverkinu hér á landi.

Birgir Þórarinsson og Karl Gauti Hjaltason, þingmenn Miðflokksins, slógu varnagla við miklar breytingar á regluverkinu líkt og Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna. Ari Trausti lýsti yfir áhyggjum af því að fyrirtæki á borð við Uber og Lyft tækju yfir markaðinn þar sem þau fyrirtæki uppfylltu ekki þær kröfur sem almenningur gerir til leigubifreiða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert