Ásakanir um undanskot komu Kára á óvart

Harpa er ekki aðili þessa máls, að mati Steinbergs Finnbogasonar, …
Harpa er ekki aðili þessa máls, að mati Steinbergs Finnbogasonar, lögmanns Kára. mbl.is/Eggert

„Ég verð nú að segja, þegar við drögum þetta saman, að það myndi koma mér verulega á óvart ef þessu máli yrði ekki vísað frá,“ segir Steinbergur Finnbogason, lögmaður Kára Sturlusonar, sem sakaður hefur verið um að hafa haldið eftir 35 milljónum króna sem hann eða fyrirtæki hans, KS Productions, fékk greitt fyrir fram af miðasölutekjum fernra tónleika Sigur Rósar, sem fram fóru í Hörpu í desember.

Harpa höfðar nú staðfestingarmál til þess að fá eignir Kára kyrrsettar, með það að markmiði að endurheimta milljónirnar 35 inn í uppgjör tónleikanna. Málflutningur um frávísunarkröfuna fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær og krefst Steinbergur þess fyrir hönd Kára að málinu verði vísað frá.

Steinbergur segir að ef svo fari muni Kári leita réttar síns gegn bæði Sigur Rós og Hörpu.

„Það er í fyrsta lagi út af því að það eru verulegir og alvarlegir formgallar á málatilbúnaði Hörpu. Hitt vandamálið og það sem mér finnst að enginn skilji í þessu máli, er að það áttu sér engar vanefndir stað af hálfu tónleikahaldarans, KS Productions,“ segir Steinbergur í samtali við mbl.is.

Björn Baldvin Haraldsson, lögmaður Hörpu, sagði við mbl.is fyrr í dag að þegar Sigur Rós hafi rift samningi sínum við Kára hafi legið fyrir að hann væri ekki að fara að undirbúa tónleikana, en fyr­ir­fram­greiðslan hafi verið veitt í því trausti að hann myndi nota pen­ing­ana til þess að und­ir­búa tón­leik­ana.

Steinbergur segir hins vegar að Kári, sem tónleikahaldari, hafi haft ráðstöfunarrétt yfir þessu fé þar til eftir tónleikana.

„Miðasalan var á hans vegum sem tónleikahaldarans og samkvæmt samningum átti að gera verkefnið upp að síðustu tónleikunum loknum. Kári var í góðri trú um að hann væri í einu og öllu að vinna í samræmi við gerða samninga og ásakanir um undanskot fjármuna komu honum algjörlega á óvart enda hafði hann fullan ráðstöfunarrétt yfir þessu fé fram að umsömdum uppgjörsdegi,“ segir Steinbergur.

Kára Sturluson. Lögmaður hans telur líklegt að frávísunarkrafa hans verði …
Kára Sturluson. Lögmaður hans telur líklegt að frávísunarkrafa hans verði samþykkt. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Engin rök fyrir riftunum samninga

Að sögn Steinbergs riftu Sigur Rós og Harpa samningum sínum við Kára sitt í hvoru lagi, tóku svo verkefnið yfir og héldu áfram með það eins og ekkert hafi í skorist. Fernir tónleikar Sigur Rósar voru haldnir í Eldborgarsal Hörpu á milli jóla og nýárs.

Þegar fyrst var fjallað um þetta mál í fjölmiðlum í byrjun nóvember, sendi Kári frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði ann­ars veg­ar vera með sam­komu­lag við hljóm­sveit­ina um tón­leik­ana og hins veg­ar sam­komu­lag við Hörpu um leigu á hús­næði, tækj­um, miðasölu og mann­skap vegna tón­leik­ana.

„Skyld­ur aðila vegna tón­leik­anna eru skýr­ar og hef ég staðið við minn hlut þar og mun gera svo áfram. Vænti ég þess að aðrir aðilar sam­komu­lags­ins geri slíkt hið sama,“ sagði í yf­ir­lýs­ingu Kára.

„Það voru engar vanefndir og engin rök fyrir neinum riftunum eða neinu slíku og tónleikarnir voru á endanum haldnir,“ segir Steinbergur. Hann bætir því við að Harpa sem leigusali í þessu tilviki hafi ekki átt tilkall til miðasöluteknanna, samkvæmt þeim samningum sem gerðir hafi verið.

„Harpa hefur enga aðild að þessu máli og hafði raunverulega aldrei,“ segir Steinbergur. Málið sé þannig á milli Kára og Sigur Rósar.

Kári muni leita réttar síns gagnvart réttum aðila

Steinbergur segir að ef þessu máli verði vísað frá, eins og hann telur að muni gerast, muni Kári leita réttar síns gegn bæði Sigur Rós og Hörpu.

„Umbjóðandi minn hefur orðið fyrir miklu og margvíslegu tjóni vegna þessarar óskiljanlegu riftunar á samningum og aðdróttana um fjárdrátt af hans hálfu. Hann mun að sjálfsögðu leita réttar síns í þeim efnum, gagnvart réttum aðila,“ segir Steinbergur.

Hann segir jafnframt að þegar samningi sé rift, sérstaklega með ólögmætum hætti, sé það grundvallarregla að viðkomandi eigi að vera eins settur eftir.

Hljómsveitin Sigur Rós á sviði, þó ekki í Eldborgarsal Hörpu. …
Hljómsveitin Sigur Rós á sviði, þó ekki í Eldborgarsal Hörpu. Mynd úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

„Það er nú dálítið langsótt að segja Kára eins settan í þessu máli, miðað við hvernig hefur verið gengið gegn honum og honum brigslað þetta, að þetta sé einhvers konar fjárdráttur. Fyrstu fréttir sem ég man eftir af þessu, áður en ég kom að málinu, voru um að það væru 35 milljónir „sem vantaði“ í miðasöluna hjá Hörpu. Eins og það hefði komið einhver þriðji aðili, læðst inn í peningaskápinn og hnuplað 35 milljónum.“

Ekki hefur komið fram í umfjöllun um þetta mál hvernig fjármununum sem um er deilt hefur verið ráðstafað og það segist Steinbergur ekki vita.

Hann segir reyndar að 35 milljónir dugi skammt til að bæta Kára það tjón sem hann hefur orðið fyrir vegna ólöglegra riftana samninga og ærumissis, en það muni hann gera kröfu um að fá bætt frá réttum aðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert