„Fólk noti hyggjuvitið“ í fyrramálið

Veðrið verður ekki fýsilegt í fyrramálið.
Veðrið verður ekki fýsilegt í fyrramálið. skjáskot/Veðurstofa Íslands

„Fólk verður að nota hyggjuvitið. Það verður snjór og blint í efri byggðum og talsverðar líkur á því að umferðin verði hæg og því færri sem eru á vegunum því betra,“ segir Elín Jóhannesdóttir, veðurfræðingur Veðurstofu Íslands, um veðrið í fyrramálið á höfuðborgarsvæðinu þegar flestir fara til vinnu.  

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð og Strandir og Norðurland vestra. Gul viðvörun er í gildi alls staðar annars staðar á landinu.  

„Þetta er hvellur sem við sjáum ekki á hverju ári,“ segir Elín. Veðurhamurinn mun ganga hratt yfir og staldra stutt við á flestum stöðum á landinu. Veðrið verður verst á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 7 til 14 á morgun. Veðrið byrjar að versna smám saman frá klukkan 8 í fyrramálið en ætti að detta niður upp úr hádegi þegar jafnframt fer að draga úr úrkomu. 

Það gengur í suðaustan 20-28 m/s með vindhviður yfir 40 m/s, einkum við fjöll. Snjókoma í fyrstu og síðan talsverð rigning einnig til fjalla. Foktjón er líklegt og ferðalög eru mjög varasöm. Veðrið gengur hratt yfir og fer að draga úr vindi fyrir hádegi og síðan úrkomu, einna síðast undir Eyjafjöllum. Þetta kemur meðal annars fram í veðurspá Veðurstofunnar

Vegagerðin hefur gefið út mögulegar lokanir á vegum vegna veðurs, flugfélagið WOW air mun flýta flugferðum sínum vegna veðurs og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur bent foreldrum á að senda börnin ekki ein af stað í skólann.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert