Gerðu tilraun til ráns á hóteli

Lögreglan hafði í nógu að snúast í alla nótt vegna …
Lögreglan hafði í nógu að snúast í alla nótt vegna margvíslegra mála sem komu upp. mbl.is/Kristinn Magnússon

Laust fyrir miðnætti í gær var óskað eftir aðstoð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna karls og konu sem reyndu að að ræna tölvu af starfsmanni hótels í miðborg Reykjavíkur með því að ógna honum með hnífi.

Voru þau handtekin skömmu síðar. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar voru þau bæði í talsvert annarlegu ástandi sökum fíkniefnaneyslu. Karlmaðurinn var með hníf og meint fíkniefni meðferðis við handtöku. Voru þau bæði vistuð í fangaklefa vegna málsins.

Rétt fyrir klukkan 1 í nótt var svo óskað eftir aðstoð lögreglu vegna stimpinga milli tveggja karlmanna í miðbænum. Var málið afgreitt á vettvangi, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar.

Dagbókin er reyndar þétt eftir nóttina og morguninn og greinilegt að lögregla hefur haft í nógu að snúast. 

Öskraði og barði hús að utan

Um hálf tvö í nótt var tilkynnt um karlmann í annarlegu ástandi sem var öskrandi og að berja á glugga á heimili í miðbæ Reykjavíkur. Fundust á honum meint kannabisefni og var hann handtekinn í kjölfarið þar sem hann var í talsvert annarlegu ástandi. Var hann vistaður í fangaklefa.

Rétt fyrir fjögur í nótt var tilkynnt um bifreið sem var ekið nokkuð greitt á móti umferð á Kringlumýrarbraut. Um klukkustund seinna var tilkynnt um sömu bifreið sem hafði oltið á Sæbraut. Voru karlmaður og piltur handteknir nokkuð frá vettvangi þar sem þeir höfðu farið af vettvangi og voru þeir báðir í annarlegu ástandi m.a. vegna ölvunar. Voru þeir fluttir á slysadeild Landspítalans í Fossvogi til skoðunar og aðhlynningar. Að því loknu voru þeir vistaðir í fangaklefa vegna málsins.

Klukkan 6.30 í morgun var tilkynnt um eignaspjöll sem unnin höfðu verið á bifreið í hverfi 105.

Rétt eftir klukkan 7 í morgun var óskað eftir aðstoð lögreglunnar vegna áttatíu svínaskrokka sem féllu af flutningabifreið á gatnamótum Sæbrautar og Reykjanesbrautar. Loka þurfti tímabundið fyrir umferð á meðan skrokkarnir voru fjarlægðir og unnið var að hreinsun.

Klukkan 10.24 var tilkynnt um umferðaróhapp á Hringbraut þar sem bifreið var ekið á vegrið. Ekki var um að ræða slys á fólki.

 Seint í gærkvöldi var tilkynnt um tvo karlmenn sem væru að vinna skemmdir á bifreið í Hafnarfirði. Þegar lögreglan kom á vettvang kom í ljós að þarna var um að ræða eiganda bifreiðarinnar sem var að eigin sögn  að undirbúa bifreiðina til niðurrifs og eyðingar.

Bílar skemmdust vegna hola í vegi

Og verkefni lögreglunnar eru af ýmsum toga.

Um klukkan hálf þrjú í nótt óskaði ökumaður eftir aðstoð lögreglu vegna skemmda sem urðu á hjólbörðum bíls hans eftir að hann ók ofan í holu á vegi í Kópavogi. Í morgun barst svo sambærileg tilkynning frá öðrum ökumanni í Kópavogi sem var þó að aka um aðra götu.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert