„Gott að fá þessa brýningu“

„Þetta er mjög gott fyrir okkur að fá þessa brýningu og ég veit það að utanríkisráðherra hefur tekið upp málefni Jemens á alþjóðavettvangi en það er mjög mikilvægt fyrir okkur að heyra frá ykkur,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra eftir að hafa tekið við áskorun frá Vinum Jemens í dag.

Fulltrúar Vina Jemens gengu í dag á fund Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í dag og færðu henni áskorun um að ríkisstjórnin myndi beita sér fyrir friðarferlinu í Jemen á alþjóðavettvangi. Þar hefur geisað stríð í meira en þúsund daga og afleiðingarnar eru hörmulegar.

Talið er að um átta milljónir manna séu á barmi hungursneyðar og að um tvær milljónir barna þjáist af bráðavannæringu í landinu. UNICEF hefur áætlað að á um tíu mínútna fresti deyi barn í Jemen af sjúkdómum eða öðrum ógnum sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir.

Í viðtali við Sunnu Ósk Logadóttur sem birtist á mbl.is í dag segir Arwa Ah­med Hus­sein Al-Fadhli, sem er íslenskur ríkisborgari, frá því hvernig óöldin hefur stigmagnast í landinu þar sem hún á rætur en Arwa var ein þeirra sem gengu á fund forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert