Hvessir mjög á landinu

Fjólubláu litirnir tákna vindhraðann 16-22 metra á sekúndu og bleiku …
Fjólubláu litirnir tákna vindhraðann 16-22 metra á sekúndu og bleiku og rauðu litirnir vindhraða um 24-32 m/s. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Kröpp og djúp lægð sem myndast langt suður í hafi hreyfist hratt norður á bóginn aðra nótt. Lægðin fer hratt norður skammt út af Vesturlandi í fyrramálið og hvessir þá mjög á landinu og ringir talsvert um tíma þegar úrkomukerfi hennar fara yfir. Spáð er suðaustanstormi eða -roki víða á landinu á morgun, jafn vel ofsaveðri vestantil. Einnig er búist við miklu úrhelli á suðaustanverðu landinu, að því er fram kemur í athugasemd veðurfræðings Veðurstofu Íslands í morgun. Spáð er 20-28 m/s í fyrramálið og jafn vel 30 m/s vestantil.

Fremur tíðindalítið veður verður hins vegar í dag; útsynningisél á vestaverðu landinu, en léttskýjað fyrir austan.

Stund milli stríða

„Hlutirnir eru þó heldur betur að gerast langt suður í hafi þar sem myndast kröpp lægð, sem mun hreyfast hratt norður á bóginn í nótt,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar í morgun. Úrkomukerfi lægðarinnar nálgast í fyrramálið og þykknar þá upp og hvessir. Lægðin dýpkar jafnt og þétt og gerir því suðaustanstorm eða -rok á landinu, jafn vel ofsaveður um tíma. Einnig er spáð talsverðri rigningu á sunnanverðu landinu á morgun og úrhelli á Suðausturlandi.„ Sem betur fer er lægðin á hraðferð svo að veðrið gengur ört niður vestanlands og léttir til þar, þó verður áfram hvasst og vætusamt eystra fram á kvöld. Fimmtudagurinn gefur kærkomna stund milli stríða, en næst illvirðislægð er væntanleg á föstudaginn kemur.“

Veðurvefur mbl.is.

Flughálka

Á Suður- og Suðvesturlandi eru víðast hvar hálkublettir og éljagangur, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Þó er flughált í Grafningi og á Bláfjallavegi. Snjóþekja og éljagangur er á Reykjanesbraut og á Hellisheiði.

Á Vesturlandi er víðast hvar hálka, hálkublettir eða snjóþekja. Þá er hálka á flestum vegum á Vestfjörðum en sums staðar eru aðeins hálkublettir. Flughált er á Örlygshafnarvegi og yfir Bjarnarfjarðarháls. 

Á Norðurlandi er víða hálkublettir en annars er fremur lítil hálka á aðalleiðum en ívið meiri hálka á útvegum. Það er víða hált eða hálkublettir á Austurlandi. Með suðausturströndinni er hringvegurinn auður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert