Megi móðga erlenda þjóðhöfðingja

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG.
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Fjórir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hafa lagt fram lagafrumvarp þess efnis að ekki verði lengur refsivert samkvæmt almennum hegningarlögum að móðga þjóðhöfðingja erlendra ríkja eins og kveðið er á um í 95. grein laganna. Frumvarpi þingmannanna gerir ráð fyrir að greinin falli brott en hún er svohljóðandi:

„Hver, sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Nú eru sakir miklar og varðar brot þá fangelsi allt að 6 árum.“ Einnig segir í henni:

„Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem smánar opinberlega eða hefur annars í frammi skammaryrði, aðrar móðganir í orðum eða athöfnum, eða ærumeiðandi aðdróttanir við aðra starfsmenn erlends ríkis, sem staddir eru hér á landi. Sömu refsingu skal hver sá sæta sem ógnar eða beitir valdi gagnvart sendierindreka erlends ríkis hér á landi eða ræðst inn á eða veldur skemmdum á sendiráðssvæði eða hótar slíku.“

Fram kemur í greinargerð að lagaákvæðum sem standa eigi vörð um sóma erlendra þjóðhöfðingja hafi sjaldan verið beitt hér á landi og enn sjaldnar hafi dómar fallið á grunni þeirra. „Þau fáu tilvik hafa þó síst verið landi og þjóð til sóma. Þannig hlaut rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson dóm fyrir að kalla Adolf Hitler blóðhund og skáldið Steinn Steinarr fyrir að smána hakakrossfána þýska nasistaflokksins. Óhætt er að segja að sagan hafi farið mjúkum höndum um þau afbrot.“

Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG. Meðflutningsmenn eru samflokksmenn hennar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé. Frumvarpið hefur tvisvar áður verið flutt en ekki náð fram að ganga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert