Minni skjálftar í nótt

Á þessu korti má sjá þann mikla fjölda jarðskjálfta sem …
Á þessu korti má sjá þann mikla fjölda jarðskjálfta sem orði hefur síðustu klukkustundir við Grímsey. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Tugir skjálfta urðu við Grímsey í nótt en allir voru þeir litlir, sá stærsti var 2,2 stig. 71 jarðskjálfti yfir 3 að stærð hefur orðið á landinu síðustu tvo sólarhringa.

Skjálftarnir í nótt hafa verið á svipuðum slóðum og síðustu daga, 10-20 kílómetra norðaustur af eynni.

Skjálftarnir voru nokkuð þéttir eftir miðnættið en nokkuð hefur dregið úr virkninni undir morgun.

Stærsti skjálftinn í hrinunni sem nú stendur yfir varð í gærmorgun og var hann 5,2 stig.

Skjálftahrinur eru algengar á þessu skjálftabelti. Hrinur af svipaðri stærð og þessi urðu til dæmis í maí og september 1969, um jólaleytið 1980, í september 1988 og í apríl 2013. Auk skjálftavirkninnar er Grímseyjarbeltið eldvirkt og því eðlilegt að spurt sé hvort skjálftavirknin nú tengist kvikuhreyfingum í jarðskorpunni. Skjálftavirknin er sunnarlega í neðansjávareldstöðvakerfi sem kennt er við Nafir. Ekki hefur þó greinst skjálftavirkni sem líkist þeirri sem þekkt er í tengslum við kvikuhreyfingar, samkvæmt upplýsingum Veðurstofu Íslands.

Samfelldar GPS-mælingar í Grímsey sýna heldur ekki mælanlega aflögun tengda þessari hrinu sem bendir til að jarðskjálftavirknin sé frekar tengd flekahreyfingum á flekaskilunum í Tjörnesbrotabeltinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert