Varað við brennisteinsmengun

Blágnípujökull er suðvestur af Hofsjökli.
Blágnípujökull er suðvestur af Hofsjökli. Kort/Map.is

Lögreglan á Suðurlandi hvetur fólk í ferðaþjónustu, sem og einstaklinga í hálendisferðum, til þess að kynna sér mögulega hættu vegna íshellis í Blágnípujökli, suðvestur af Hofsjökli, sem verið hefur vinsæll á meðal ferðamanna á undanförnum vikum. Vísað er í því sambandi til brennisteinsmengunar en mælingar á henni voru gerðar 3. og 17. febrúar.

„Hellir þessi hefur ekki verið meðal fjölfarinna ferðamannastaða en nú er svo komið að nokkur fjöldi fólks fer þarna með vel búnum fjallabílum í viku hverri. Fréttir hafa sést í fjölmiðlum um alvarlegt atvik sem talið er tengjast menguninni. Utan hellisins var styrkur brennisteinsvetnis (H2S) við 0 en eftir nokkurra mínútna göngu inn eftir hellisgólfinu var styrkurinn kominn yfir 20 ppm. Síðan fór hann hækkandi og á 2 mínútna tímabili mældust mjög há gildi, á bilinu 120-183 ppm. Við slíkan styrk brennisteinsvetnis er bráðahættuástand, lyktarskyn hverfur og erting öndunarfæra vex,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Lögreglan bendir á að ljóst sé að ef bjarga þurfi fólki við þessar aðstæður muni þurfa á sérhæfðum búnaði að halda fyrir þá sem vinna að björgun.

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert