690 dómar kveðnir upp í Hæstarétti

Hæstiréttur Íslands
Hæstiréttur Íslands mbl.is/Ófeigur Lýðsson

690 dómar voru kveðnir upp í Hæstarétti á árinu 2017. Er það nokkru minna en undanfarin ár, en þeir voru 762 í fyrra. Þetta kemur fram í ársskýrslu Hæstaréttar, sem kom út í dag. Ástæða fækkunarinnar er sú að dómurum við réttinn fækkaði um tvo í september í fyrra.

Munnlega flutt mál voru 256 talsins, og dæmdu þau að jafnaði þrír dómarar, eða í 197 tilfellum. 58 sinnum dæmdu fimm dómarar, en einungis einu sinni dæmdu sjö dómarar mál. Það var í september er sjö dómarar dæmdu í máli þar sem deilt var um hvort heim­ilt sé að ákæra menn fyr­ir meiri hátt­ar skatta­laga­brot þó að þeir hafi áður sætt háu álagi ofan á van­goldna skatta. Þótti sá dómur fordæmisgefandi og var dómurinn því fullskipaður, þ.e. skipaður sjö dómurum.

Árið 2017 bárust Hæstarétti 401 áfrýjað mál en til samanburðar voru þau 432 á árinu 2016. Þá voru kveðnir upp dómar í 256 áfrýjuðum málum en á árinu 2016 voru þeir 356 talsins. 

Þess má vænta að málafjöldi Hæstaréttar verði mun minni á þessu ári en því síðasta með tilkomu hins nýja millidómsstig, Landsréttar sem tekið hefur við hlutverki Hæstaréttar sem áfrýjunardómstóll.

Áfrýjanir úr Landsrétti til Hæstaréttar eru í öllum tilvikum háðar samþykki Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert