Allt á floti á flugvellinum

Ofsarigning og stífluð niðurföll hjálpuðust að við að mynda fljótið …
Ofsarigning og stífluð niðurföll hjálpuðust að við að mynda fljótið á flugbrautinni. Ljósmynd/Aðsend

Það var ekki fögur sjón sem blasti við starfsmönnum flugvallarþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli í morgun. Ís og krapi stíflaði niðurföllin á flugbrautum alveg við Leifsstöð sem varð til þess að flugbrautin fylltist af vatni.

Sigurður Björgvin Magnússon, aðstoðarvaktstjóri flugvallarþjónustunnar, segir ruðningstækin hafa verið notuð til að losa klakann frá niðurföllum svo vatnið gæti runnið niður eðlilega.

Þótt vatnið sé ekki árennilegt að sjá segir Sigurður það engin áhrif hafa haft á flugumferð. „Þær aka bara yfir þetta eins og ekkert sé.“

Mikill vindur í morgun hafi þó sett strik í reikninginn. „Það voru fín bremsuskilyrði, en í morgun var ekki hægt að afísa vélarnar.“ Til að afísa flugvélar fyrir brottför þarf að notast við kranabíla, en í roki eins og var í morgun er ekki hægt að reisa kranann.

Tafir urðu á að minnsta kosti níu vélum í morgun, þarf sem farþegar voru komnir um borð, vegna þess að ekki náðist að afísa þær. Eftir því sem leið á morguninn hlýnaði og lægði og segir Sigurður vélarnar þá hafa byrjað að tínast út.

Veðurskilyrði í Keflavík eru nú orðin ágæt. Tveggja stiga hiti er á vellinum, blautt og vindur um fimm metrar á sekúndu. „Allt bara í toppstandi,“ segir Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert