Átti ekki að vera einn með börnum

Til athugunar er hvort afla eigi vottorða úr sakaskrá við …
Til athugunar er hvort afla eigi vottorða úr sakaskrá við ráðningar í öll störf á velferðarsviði borgarinnar. mbl.is/Hari

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar vill koma því á framfæri vegna rannsóknar á meintu kynferðisbroti starfsmanns, að hann hafi í daglegum störfum sínum ekki átt að vera einn samvistum við börn. Nú fer hins vegar fram ítarleg athugun af hálfu sviðsins á hvort frá því hafi nokkuð verið undantekning.

Jafnframt kannar velferðarsvið hvernig staðið var að ráðningarferli starfsmannsins sumarið 2017, en hann var ráðgjafi á einni undirstofnun sviðsins. Þetta kemur fram í yfirlýsingu velferðarsviðs.

Maðurinn sem um ræðir er á sextugsaldri og hefur verið kærður fyrir kynferðisbrot gegn fyrrverandi stjúpdóttur sinni, sem er á barnsaldri. Fyrir þremur árum var maðurinn einnig kærður fyrir kynferðisbrot gegn ungum pilti, en það mál var látið niður falla eftir rannsókn lögreglu.

Í yfirlýsingunni, sem birtist á vef Reykjavíkurborgar, segir meðal annars. „Þegar yfirmanni umrædds starfsmanns bárust upplýsingar um kæru á hendur honum, vegna ætlaðra brota gegn stjúpdóttur sinni, var brugðist við og starfsmaðurinn settur í sérverkefni og í framhaldinu í leyfi frá störfum hjá Reykjavíkurborg.“

Þar kemur einnig fram að við ráðningar í störf þar sem unnið er með börnum og fötluðu fólki sé gerð krafa um að umsækjendur framvísi hreinu sakavottorði, svo sem kveðið er á um í hlutaðeigandi lögum. Ekki hafi verið krafist vottorða úr sakaskrá við ráðningu í störf af því tagi sem viðkomandi starfsmaður gegndi, enda ekki gerð krafa um það samkvæmt lögum.

„Til athugunar er hjá velferðarsviði hvort afla eigi vottorða úr sakaskrá við ráðningar í öll störf á sviðinu. Velferðarsvið mun einnig taka upp það vinnulag að afla reglubundið upplýsinga úr sakaskrám um starfsmenn sem starfa með fötluðum einstaklingum, börnum og í umhverfi barna, en ekki bara við ráðningar eins og hefðin er hjá Reykjavíkurborg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert