Boðar lækkun veiðigjalda

Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Lilja Rafney Magnúsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar, boðar endurskoðun veiðigjalda og segir undirbúning þess hafinn í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Þetta kom fram á þingfundi í dag.

Lilja sagði lítil og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki og sveitarfélög hafa miklar áhyggjur af veiðigjöldum. Sagði hún núverandi fyrirkomulag leiða til samþjöppunar og að engin útgerð þyldi 200-300% hækkun á veiðigjöldum, án þess að skýra þær tölur frekar.

Þá tók hún dæmi um frystihús HB Granda á Akranesi sem lokaði í fyrra. „Það er eitthvað skrítið ef fiskvinnsla og útgerð þrífast ekki á Akranesi. Þá er líka eitthvað að leikreglunum sem við þurfum að skoða hér á Alþingi,“ sagði Lilja. HB Grandi er þó stærsta útgerðarfyrirtæki landsins með 11,3% aflahlutdeild. 

Hagnýti ekki vandann til að lækka sanngjarnt veiðigjald

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, varaði við því að bráðavandi tiltekinna lítilla fyrirtækja væri hagnýttur til að festa í sessi óréttlæti þegar kemur að því eðlilega og sanngjarna gjaldi sem auðlindagjald væri.

Sagði hún fulla ástæðu til að vera á varðbergi gagnvart breytingum á auðlindagjaldinu þegar í ríkisstjórn sætu þingmenn frá Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Þeir tveir flokkar hefðu löngum barist gegn innleiðingu auðlindaákvæðis í stjórnarskrá og lagt á kapp á að lækka gjöld fyrir nýtingu auðlindarinnar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert