Dæmdir fyrir 100 milljóna skattsvik

Mennirnir voru ekki sammála um það fyrir dómi hver hefði …
Mennirnir voru ekki sammála um það fyrir dómi hver hefði borið ábyrgð á daglegri stjórn félagsins. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Héraðsdómur dæmdi í gær tvo karlmenn, Örn Björnsson og Kristján Ólason, í 14 og 15 mánaða fangelsi fyrir meiri háttar brot á skattalögum upp á samtals tæplega 100 milljónir króna. Brotin tengjast rekstri einkahlutafélagsins Endurbætur, en reksturinn sem um ræðir virðist reglulega hafa verið færður yfir á nýja kennitölu á síðustu árum. Voru þeir Kristján og Örn báðir framkvæmdastjórar félagsins og prófkúruhafar hvor á sínu tímabilinu.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að þegar Endurbætur ehf. hafi orðið gjaldþrota hafi það runnið inn í nýtt félag, Viðhald og viðgerðir ehf., en Reykjavíkurborg hefur átt í viðskiptum við það síðarnefnda. Á síðasta ári tók borgin tveimur tilboðum félagsins í verk, annars vegar í áhorfendastúku við leikvöll Þróttar í Laugardal og hins vegar gluggaskipti í Klettaskóla.

DV greindi frá því um miðjan júlí á síðasta ári að fyrirtæki Kristjáns, Viðhald og viðgerðir ehf., væri nú starf­rækt á fjórðu kenni­töl­unni og var hann sagður með slóð gjaldþrota í viðskipta­sögu sinni. Hann hefði keyrt sex fé­lög í þrot frá ár­inu 2007.

Þá hafði rannsókn skattrannsóknarstjóra á brotum Kristjáns og Arnar staðið yfir í nokkurn tíma, en í desember árið 2016 var þeim tilkynnt um lok rannsóknarinnar og fyrirhugaða ákvarðanatöku um refsimeðferð í málinu.

Rannsókn skattrannsóknarstjóra leiddi í ljós meiri háttar brot á skattalögum og var málið sent embætti héraðssaksóknara til rannsóknar í júní 2017. Í október sama ár gaf héraðssaksóknari svo út ákæru í málinu.

Héldu eftir staðgreiðslu og skiluðu ekki virðisauka

Er þeim Kristjáni og Erni gert að sök að hafa staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum vegna tímabilanna maí til júní og nóvember til desember rekstrarárið 2015, að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslu félagsins á lögmætum tíma vegna uppgjörsímabilsins september til október rekstrarárið 2015 og hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti vegna uppgjörstímabilanna mars til apríl og nóvember til desember sama ár. Upphæðin sem ekki var staðið skil á er sú sama hvað þá báða varðar, eða rúmar 23 milljónir króna.

Þá er þeim báðum einnig gefið að sök að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins vegna greiðslutímabilanna frá apríl til og með desember árið 2015. Vangoldin staðgreiðsla hvað Kristján varðar er rúmar 26 milljónir króna, en hvað Örn varðar tæpar 28 milljónir króna.

„Copy paste“ af Allt viðhald ehf. 

Fyrir dómi kvað Kristján það hafa verið sinnuleysi að gera Örn ekki að framkvæmdastjóra félagsins strax því hann hafi haldið utan um fjármál þess frá upphafi, stýrt tilboðsgerð og fleiru. Hann hafi síðar falið Erni stjórn félagsins enda hafi hann sóst eftir því. Upplýsti hann að vangoldin staðgreiðsla opinberra gjalda hefði runnið inn í rekstur félagsins.

Fyrir dómi sagðist Örn ekki hafa sóst eftir því að vera framkvæmdastjóri félagsins og ekki hafa haft með höndum daglega stjórn. Kvaðst hann hafa litið á sig sem „verkefnastjóra“ Endurbóta ehf. en sjálfur hefði hann verið verktaki og aldrei verið á launaskrá hjá félaginu. Þetta félag hafi verið „copy paste“ af félaginu Allt viðhald ehf. (síðar ABHHH ehf.). Kristján hafi beðið hann að skrifa upp á að vera í stjórn félagsins. Hafi skráningin verið mistök sem hann sjái eftir í dag. Hafi hann ekki hugleitt hvernig hefði farið fyrir fyrra félaginu. Kvaðst hann þó hafa verið reynslunni ríkari þegar Endurbætur hófu starfsemi sína og þekkt betur til ábyrgðar sinnar en áður. Aðspurður kvaðst hann hafa áttað sig á því að staða félagsins væri slök en hann hefði svifið um á „bleiku skýi“, að því er segir í dómnum.

Þá sagðist Örn einnig vita að þegar félagið Endurbætur ehf. hefði liðið undir lok hefði allt runnið inn í rekstur nýs félags, Viðhald og viðgerðir ehf. Báðir neituðu þeir sök í málinu.

Var það niðurstaða héraðsdóms að Kristjáns skyldi sæta fangelsi í 15 mánuði og Örn 14, en fullnustu refsingar er frestað og fellur hún niður að tveimur árum liðnum haldi þeir skilorð. Þá er Kristjáni gert að greiða tæplega 50 milljóna króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna, ella sæta fangelsi í 270 daga. Hvað Örn varðar, skal hann greiða um 52,5 milljóna króna sekt í ríkissjóð innan sama tíma, ella sæta sömu refsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert