Kemur til greina að niðurgreiða flugfargjöld

Innanlandsflug.
Innanlandsflug. Morgunblaðið/Ómar

Til greina kemur að „niðurgreiða flugfargjöld fyrir íbúa tiltekinna svæða“ í innanlandsflugi. Innanlandsflug verður einnig hagstæðari valkostur en nú er, en samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mun beita sér fyrir slíkum aðgerðum. Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssyni um stefnu stjórnvalda um innanlandsflug.   

Stefna stjórnvalda hefur verið að draga úr rekstrarkostnaði flugrekenda með því að „halda farmiðaverði niðri. Í því skyni hefur rekstur flugvallanna verið fjármagnaður að tveimur þriðju hlutum af ríkissjóði en að einum þriðja af þjónustugjöldum sem flugrekendur greiða.“ Þetta segir enn fremur í svari ráðherra þegar spurt er um stefnu stjórnvalda um eignarhald, rekstur, viðhald og uppbyggingu innanlandsflugvalla. 

Ríkið á innanlandsflugvellina en rekstur þeirra er á vegum Isavia ohf. á grundvelli þjónustusamnings. 

Í tillögu að samgönguáætlun fyrir árin 2015–2026 kemur fram að innanlandsflug er hluti af  grunnneti almenningssamgangna. Í þeirri tillögu er miðað við að flestir landsmenn eigi kost á að sækja opinbera þjónustu á höfuðborgarsvæðinu á innan við 3,5 klukkustundum með því að nýta sér almenningssamgöngur. 

Í svari ráðherra kemur jafnframt fram að unnið er að tillögum sem byggja á niðurstöðum starfshópa sem hafa fjallað um innanlandsflug. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert