Komið fárviðri á Reykjum í Hrútafirði

Veðurútlit á hádegi í dag, miðvikudag.
Veðurútlit á hádegi í dag, miðvikudag. Ljósmynd/Veðurstofan

Veðurofsinn á höfuðborgarsvæðinu er búinn að ná hámarki og er nú tekinn að dvína, en komið er fárviðri á Reykjum í Hrútafirði þar sem vindhraði mælist nú 33 m/s.

„Veðrið hér er búið að ná hámarki og er nú að dvína. Þetta er samt búið að vera nokkuð stöðugt frá því klukkan tíu í morgun þegar það dró úr mesta vindhraðanum,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofunni. Hún bætir við að úrkoman á suðvesturhorninu gangi væntanlega yfir um hádegi.

Mjög hvasst er hins vegar orðið á Vestfjörðum og norðvestanverðu landinu og enn er að bæta í vind á norðanverðu Snæfellsnesi. „Þetta gengur þokkalega eftir,“ segir Elín Björk og bætir við að veðrið verði kraftmeira á Norðvesturlandi og meiri vindur þar. „Það er t.d. komið fárviðri á Reykjum í Hrútafirði.“

Hún segir áfram verða verulega hvasst  á Norðvestanverðu landinu fram til tvö síðdegis, en þá fari að draga úr vindi þar. Vindhraðinn í Hrútafirði er nú komin upp í 33 m/s og á þeim slóðum hafa vindhviður hafa mælst upp í 43 m/s. Á Brúsastöðum í Vatnsdal mælist vindur nú 29 m/s og hviður eru upp á 40 m/s í hviðum. Á Haug í Miðfirði er vindhraðinn 27 m/s og hviðurnar ná 39 m/s.

Enn á veðrið eftir að ganga norðar, en það mun ná inn í Fljót, sem og á Skaga og Strandir. „Þegar komið er í há fjöll eins og á Tröllaskaganum þá geta hviðurnar alveg farið í 50 m/s,“ segir Elín Björk.

Einnig verður hvasst á austanverðu landinu, þó að vindurinn nái ekki alveg sama styrk. Þar stoppa skilin hins vegar svolítið og ganga síðan hægt niður í nótt.

Töluvert hefur rignt á Grundarfirði í morgun og mikið hefur snjóað á Patreksfirði. Þá er farið að rigna á Austfjörðum, en hellirigning er nú á Höfn í Hornafirði og Kirkjubæjarklaustri og verður áfram mikil úrkoma þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert