Lokað við Smáralind vegna vatnselgs

Björgunarsveitir aðstoðuðu ökumann í nágrenni Hörðuvallaskóla í Kópavogi, sem lenti …
Björgunarsveitir aðstoðuðu ökumann í nágrenni Hörðuvallaskóla í Kópavogi, sem lenti í vandræðum í vatnselgnum. mbl.is/Eggert

Umferðargöngin við Smáralindina eru lokuð núna vegna vatnselgs. Tilkynningar um vatnstjón berast nú í miklu magni inn til slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu eftir ofsaveðrið sem verið hefur í morgun.

„Tilkynningar eru að hrynja inn núna,“ segir vakthafandi slökkviliðsmaður og kveður slökkviliðsmenn hafa meira en nóg að gera þennan morguninn. Sex bílar voru úti í vatnstengdum verkefnum þegar mbl.is hafði samband. Í flestum tilfellum eru tilkynningarnar vegna vatnstjóns á heimilum fólks, en einnig var tilkynnt um vatnsleka við leikskólann Hvamm í Hafnarfirði. Rafmagnsleysi í Mosfellsdalnum leiddi einnig til þess að brunndæla fór þegar hún fékk ekki rafmagn og með þeim afleiðingum að það kom vatnsleki þar.

Þá voru björgunarsveitarmenn að störfum við að aðstoða ökumann bíls sem var á floti í nágrenni Hörðuvallaskóla í Kópavogi.

Loka þurfti umferðargöngum við Smáralindina vegna vatnselgsins.
Loka þurfti umferðargöngum við Smáralindina vegna vatnselgsins. mbl.is/Harpa

„Við sinnum engu öðru“

Sigríður Tómasdóttir upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar, segir alla mokstursverktaka hjá bænum vera búna að vera úti frá því í nótt. „Það eru líka allir starfsmenn þjónustumiðstöðvar sem sinna þessum  málaflokki úti að losa frá niðurföllum,“ segir hún. 

Versta staðan þessa stundina sé í umferðagöngunum  sem liggja undir Reykjanesbrautina við Smáralindina. „Þau eru lokuð núna og þar er algjör elgur í augnablikinu,“ segir Sigríður og bætir við að ekki liggi fyrir hve hratt gangi að losa vatnið.

Hjá Reykjavíkurborg eru líka allir starfsmenn hverfastöðva, sem þeim störfum sinna, úti að losa frá niðurföllum. „Við erum á þeysingi um allt,“ segir Ísak Möller rekstrarstjóri í hverfastöðinni við Jafnasel. „Það sest mikið krap á ristarnar.“ 

Stór pollur myndaðist m.a. á Breiðholtsbrautinni við Árskóga, sem og á Strandvegi við Gufunesbæ. „Þetta er úti um allt,“ bætir Ísak við. „Við sinnum engu öðru en þessu í augnablikinu og erum að reyna að koma í veg fyrir að tjón verði.“

Starfsmenn Mosfellsbæjar hafa einnig verið önnum kafnir við að losa frá niðurföllum í morgun og reyna að tryggja að vatn fari ekki inn hjá fólki. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetur á Facebook-síðu sinni ökumenn til að fara varlega er þeir reyna að komast fram hjá vatnselgnum, því margir hafi lent í því að drepa á bílum sínum í djúpu vatninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert