Ók út af bryggjunni á Fáskrúðsfirði

Mikil hálka var á bryggjunni þegar slysið varð.
Mikil hálka var á bryggjunni þegar slysið varð. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Karlmaður ók út af bryggjunni á Fáskrúðsfirði um sjöleytið í morgun, en mikil hálka var á svæðinu. Maðurinn komst sjálfur út úr bílnum við illan leik áður en hann sökk. Þetta staðfestir Óskar Þór Guðmundsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Fáskrúðsfirði, í samtali við mbl.is, en Austurfrétt greindi fyrst frá atvikinu.

„Það var mikil hálka á bryggjunni. Það var nýfallinn snjór yfir svelli og starfsmaður hjá loðnuvinnslunni gætti ekki að sér,“ segir Óskar í samtali við mbl.is. Hefðbundinn bryggjukantur er á bryggjunni, en um jeppabifreið var að ræða og virðist hún hafa farið auðveldlega yfir kantinn.

Maðurinn var mjög þrekaður og kaldur eftir að hafa komst út úr bílnum og var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað til frekari aðhlynningar. Óskar segir bílinn hafa sokkið niður á um 12 til 15 metra dýpi en búið er að hífa hann upp.

Lögregla rannsakar nú tildrög slyssins en það lítur út fyrir að um hálkuslys hafi verið að ræða. Engin vitni urðu á slysinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert