Öryggisverðinum sagt upp störfum

Starfsmanni Öryggismiðstöðvarinnar hefur verið sagt upp störfum vegna málsins. Myndin …
Starfsmanni Öryggismiðstöðvarinnar hefur verið sagt upp störfum vegna málsins. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Árni Sæberg

Starfsmanni Öryggismiðstöðvarinnar sem var hnepptur í gæsluvarðhald vegna innbrots í gagnaver Advania á Suðurnesjum hefur verið sagt upp störfum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Þar kemur fram að málið sé mikið áfall fyrir starfsfólk fyrirtækisins, enda sé traust eitt af lykilgildum þess. 

Maðurinn hefur starfað hjá fyrirtækinu um árabil og átt flekklausan feril fram til þessa. 

Því sé afar sárt að sjá viðkomandi aðila taka svo alvarlegar og rangar ákvarðanir. 

Öryggismiðstöðin hefur veitt lögreglunni alla mögulega aðstoð í málinu. 

Tilkynningin í heild sinni:

„Eins og kom fram í fréttum RÚV í kvöld þá var einn starfsmaður Öryggismiðstöðvarinnar hnepptur í gæsluvarðhald nýverið vegna innbrots í gagnaver Advania á Suðurnesjum. Starfsmanninum hefur verið sagt upp störfum hjá Öryggismiðstöðinni.

Þetta er mikið áfall fyrir starfsfólk Öryggismiðstöðvarinnar enda er traust eitt af lykilgildum fyrirtækisins. Viðkomandi aðili hefur verið hluti af starfsliði fyrirtækisins um árabil og á flekklausan feril að baki fram að þessu. Það er því afar sárt að sjá viðkomandi aðila taka svo alvarlegar og rangar ákvarðanir. Öryggismiðstöðin hefur veitt lögreglu alla mögulega aðstoð við rannsókn málsins. Mikilvægt er að aðkoma viðkomandi aðila að málinu telst nú upplýst.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert