Sex létust í árás á lögreglustöð

Árásin átti sér stað í þorpinu Engcobo í Suður-Afríku skömmu …
Árásin átti sér stað í þorpinu Engcobo í Suður-Afríku skömmu eftir miðnætti. Kort/Google

Sex létust er hópur vopnaðra manna réðst inn á lögreglustöð í Suður-Afríku í dag og rændi þar skotvopnum. Fimm hinna látnu voru lögreglumenn og einn var hermaður.

Árásin átti sér stað í þorpinu Engcobo í suðurhluta landsins skömmu eftir miðnætti. AFP-fréttastofan hefur eftir talsmanni lögreglu að árásarmennirnir hafi hafið skothríð á lögreglu er þeir komu inn á lögreglustöðina.

Vish Naidoo, talsmaður lögreglunnar, sagði þrjá lögreglumenn hafa verið drepna á lögreglustöðinni, þeir hafi síðan haldið á brott með vopnin sem þeir rændu og tvo lögreglumenn sem gísla. Lögreglumennirnir fundust síðar látnir við vegkantinn. Þá drápu árásarmennirnir einnig hermann á flótta sínum.

Árásir á lögreglumenn eru algengar í Suður-Afríku, en landið hefur eina hæstu glæpatíðni í heiminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert