Ungi hælisleitandinn farinn úr landi

Litla-Hraun.
Litla-Hraun. mbl.is/Sigurður Bogi

Átján ára pilturinn sem ráðist var á í íþróttahúsi Litla-Hrauns í síðasta mánuði hefur verið sendur úr landi.

Þetta segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sinni.

„Í gærkvöldi, þegar við vorum að búa okkur í háttinn, var ungur flóttamaður, sem leitaði ásjár hér á landi en lenti í ítrekuðum líkamsárásum í fangelsi landsins, sendur úr landi. Hvorki lögmaður sá sem annaðist leyfi hans til dvalar né verjandi hans voru látnar vita um brottvísun,“ skrifaði Helga Vala.

Pilturinn hafði ítrekað reynt að komast í skip á leið til Kanada. Eft­ir nokkr­ar slík­ar til­raun­ir var hann færður í gæslu­v­arðhald. Lengst af dvaldi hann hér á landi í um­sjón barna­vernd­ar­yf­ir­valda en hann hafði fengið synj­un um dval­ar­leyfi hér­lend­is.

„Þess ber að geta að umræddur ungi maður beið niðurstöðu Kærunefndar Útlendingamála við beiðni hans um endurupptöku á máli sínu, eðli málsins samkvæmt. Útlendingastofnun var vel kunnugt um að þessarar niðurstöðu var beðið en samt var þessi ákvörðun tekin um að brottvísa honum og láta þá fulltrúa sem hér gæta hans réttar ekki vita, væntanlega til að engum mótmælum yrði hreyft. Til upplýsingar þá er það Útlendingastofnun sem ákveður um brottvísun en ríkislögreglustjóri annast framkvæmd,“ skrifar Helga Vala. 

Hún fordæmir vinnubrögðin og vill að dómsmálaráðherra kanni hvað gerðist í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert