„Við erum í góðum málum“

Frá Siglufirði.
Frá Siglufirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Vorið er komið á Siglufirði ef marka má fréttaritara mbl.is og bæjarstjórann í Fjallabyggð, Gunnar Birgisson. Hitastigið í bænum er rétt tæpar tíu gráður og þar bærist vart hár á höfði.

„Í suðaustanátt sleppum við tiltölulega vel,“ segir Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar. „Það var hvasst í morgun en svo datt þetta niður,“ bætir Gunnar við.

Óveður hefur gengið yfir landið það sem af er degi, með mikilli úrkomu og vindi. Vindhraði mældist yfir 50 m/s í hviðum undir Hafnarfjalli í morgun og þá hefur slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu þurft að sinna fjölda útkalla vegna vatnsleka.

Þá var fárvirði á Reykjum í Hrútafirði í hádeginu en vinhraði mældist þar 33 m/s og á þeim slóðum fóru hviðum upp í 43 m/s. 

Gunnar Ingi Birgisson bæjarstjóri í Fjallabyggð
Gunnar Ingi Birgisson bæjarstjóri í Fjallabyggð mbl.is/Sigurður Bogi

Gunnar hlær og tekur undir með blaðamanni sem spyr hvort vorið sé á næsta leyti. Hann segir enga hættu á því að snjóflóð falli enda taki snjóinn hratt upp í svona miklum hita.

„Við erum í góðum málum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert