13 fá styrk frá Isavia

Þrettán verkefni fengu styrk úr samfélagssjóði Isavia.
Þrettán verkefni fengu styrk úr samfélagssjóði Isavia. Mynd/Isavia

Isavia hefur úthlutað styrkjum til 13 verkefna úr samfélagssjóði sínum. Verkefnin eru af fjölbreyttum toga. Við val á styrkþegum er áhersla er lögð á umhverfismál, mannúðarmál, forvarnir, flugtengd málefni, listir, menningu og menntamál. Úthlutað er úr sjóðnum tvisvar á ári. Verkefnin sem fengu styrk að þessu sinni eru:

AOPA á Íslandi (Félag flugmanna og flugvélaeigenda á Íslandi) fékk styrk vegna þátttöku í heimsþingi IAOPA. AOPA á Íslandi hefur 150 virka félaga sem nota flugþjónustu og flugvelli sem Isavia rekur. Félagið rekur umfangsmikið félags- og fræðslustarf sem stuðlar að auknu flugöryggi og öryggisvitund, ekki bara fyrir félaga heldur alla flugmenn.

Birta landssamtök fengu styrk til ýmissa verkefna. Birta eru landssamtök fólks sem misst hefur börn sín skyndilega. Tilgangur og markmið eru að standa fyrir fræðslu og ýmsum viðburðum á landsvísu. Samtökin standa einnig fyrir hvíldardögum fyrir foreldra, forráðamenn og fjölskyldur þeirra.

Ferðaklúbburinn 4x4 fékk styrk vegna endurnýjunar á VHF endurvarpskerfi félagsins sem er það stærsta sinnar tegundar á Íslandi og er notað af ferðafólki, björgunarsveitum og viðbragðsaðilum.

Félag heyrnarlausra fékk styrk til að koma af stað greiningarvinnu um geðheilbrigði heyrnarlausra í samstarfi við Háskólann í Reykjavík.

Fjölskylduhjálp Íslands fékk styrk til matarúthlutana til barnafjölskyldna í Reykjanesbæ.

Hekluskógar fengu styrk fyrir verkefni um að endurheimta birkiskóla á svæði Hekluskóga í Þjórsárdal.

Íþróttabandalag Reykjanesbæjar fékk styrk til að efla barna- og unglingastarf í samfélaginu. Íþróttabandalag Reykjanesbæjar er regnhlífarsamtök níu íþróttafélaga í Reykjanesbæ.

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna fékk styrk vegna verkefnis þar sem nemendur í 3. bekk um allt land eru heimsóttir og fræddir um eldvarnir og gefinn kostur á að taka þátt í Eldvarnargetrauninni.

Listahátíð í Reykjavík fékk styrk til að setja upp leiksýningu í miðborginni og víðar. Um 200 manns taka þátt, flestir almennir borgarar. Hugmyndin er að láta líta út fyrir að tíminn hafi fallið saman og á götum borgarinnar 2018 verði einstaklingar frá árinu 1918.

Lítil hjörtu, að beiðni B-vaktar vopnaleitar á Keflavíkurflugvelli, fá styrk. Lítil hjörtu eru góðgerðarfélag sem aðstoðar fjölskyldur sem eru með lítið á milli handanna. Starfsfólk B-vaktar vopnaleitar ætlar að styrkja félagið og óskaði eftir mótframlagi frá Isavia.

Rannsóknarmiðstöð gegn ofbeldi fékk styrk til framleiðslu rafræns efnis sem inniheldur almenna fræðslu og gagnlegar upplýsingar fyrir þolendur langvarandi ofbeldis.

Samgönguminjasafnið í Skagafirði fékk styrk til að setja upp upplýsingar um sögu flugumferðar á Íslandi frá upphafi til dagsins í dag.

Samtök umgengnisforeldra fengu styrk fyrir verkefni sem miðar að hagsmunagæslu og réttindabaráttu fyrir umgengnisforeldra. Félagið beitir sér fyrir bættri stöðu þeirra gagnvart velferðarkerfinu, almannaskráningu og hagskýrslugerð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert