3,7 jarðskjálfti á Öxarfirði

Skjálftinn fannst í Skíðadal, nærri Dalvík, í um 90 km …
Skjálftinn fannst í Skíðadal, nærri Dalvík, í um 90 km fjarlægð frá upptökunum. Kort/Veðurstofan

Skjálfti af stærð 3,7 varð úti á Öxarfirði um hálfáttaleytið í morgun um 15 km vestsuðvestur af Kópaskeri. Hafa minni skjálftar orðið í kjölfarið að því er fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofunni. 

Skjálftinn fannst í Skíðadal, nærri Dalvík, í um 90 km fjarlægð frá upptökunum. 
Líkt og hrinan sem staðið hefur yfir við Grímsey, er skjálftavirknin í Öxarfirði er  á Grímseyjarbeltinu.

Sigurlaug Hjaltadóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni  segir að mögulega megi rekja skjálftann í morgun til skjálftahrinunnar sem verið hefur í nágrenni Grímseyjar undanfarið. „Það getur vel verið að hrinan hafi hrint af stað skjálftavirkni annars staðar á sama belti,“ segir hún. Skjálftarnir við Grímsey eru í rénun, en engu að síður verða enn stöðugt skjálftar. „Það er þó minni ákafi í hrinunni en verið hefur,“ segir Sigurlaug.

Kominn tími á stórann skjálfta

Eftirskjálftar hafa orðið af stóra skjálftanum í Öxarfirði morgun og gæti því vel verið minni hrina á ferðinni í Öxarfirði nú. „Eins og er, þá er ómögulegt að segja hvað verður,“ segir hún og bætir við að til þessa hafa skjálftavirknin þó ekki mælst jafn áköf og sú sem var í Grímsey.

Hún segir þó þekkt í sögulegu samhengi að það hafi orðið stórir skjálftar nærri Kópaskeri, en jarðskjálfti upp á rúm sex stig mældist á Kópaskeri 1976. „Það getur komið áköf hrina þarna eins og norðar, en tíminn verður bara að leiða í ljós hvað gerist,“ segir Sigurlaug og kveður náttúruvársvið fylgjast grannt með framgangi mála.

Þá hafi Veðurstofan upplýst Almannavarnir um skjálftann, en ekki sé talin ástæða til að funda enn sem komið.

„Það er búið að vera mikil virkni í Grímsey og það er kominn tími á stórann skjálfta, en það er ekkert meira sem segir til um hvað eða hvenær það geti orðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert