Kastað í djúpu laugina strax á fyrsta ári

Árdís Ilmur í gönguferð við höfnina í Bournemouth
Árdís Ilmur í gönguferð við höfnina í Bournemouth Ljósmynd/Guðmundur Hjaltason

Árdís Ilmur Petty er 21 árs Reykjavíkurmær sem hafði lengi langað til þess að flytja til útlanda. Hún útskrifaðist frá Menntaskólanum við Sund árið 2016 og þaðan lá leið hennar til Bournemouth á Bretlandi þar sem hún leggur stund á viðburðastjórnun við Bournemouth University.

Hún segir það hafa verið góða ákvörðun og að námið eigi einstaklega vel við hana, það sé bæði krefjandi og skemmtilegt.

„Ákvörðunin um að flytjast til útlanda hefur blundað í mér lengi, eiginlega alveg síðan mamma sagði mér fimm ára gamalli að við gætum ekki flutt til Portúgal en ég gæti alveg flutt til útlanda sjálf einhvern tímann seinna“ svarar Árdís, þegar hún er spurð hvers vegna hún hafi ákveðið að leggja land undir fót. „Þegar ég var um það bil að klára menntaskóla ákvað ég að það væri rétti tíminn til þess að láta þennan gamla draum rætast.“

Sjálfboðaliði

Spurð hvort hún hafi starfað við viðburðastjórnun áður svarar Árdís neitandi. „Ekki beint en ég hef verið sjálfboðaliði á ýmsum viðburðum á Íslandi. Eftir að ég byrjaði í náminu hérna úti hins vegar hefur skólinn verið duglegur að bjóða mér að vera sjálfboðaliði á hinum og þessum viðburðum sem ég hef verið að nýta mér“

Árdísi líkar námið í Bournemouth University mjög vel. „Ég er ótrúlega ánægð. Þetta er fjögurra ára nám og inni í því er eitt ár á vinnumarkaðnum. Í rauninni er þetta eitt fjölbreyttasta nám sem maður getur farið í, en í þessu námi lærir maður meðal annars hagfræði, hönnun, markaðsfræði, samskipti og allt um samfélagsmiðla, og sögu.“

Árdís segir námið einnig mjög verklegt.

„Manni er alveg kastað í djúpu laugina strax á fyrsta ári, maður fær mjög fljótt verkefni við að setja upp viðburð hjá fyrirtæki. Þriðja árið er svo þannig uppbyggt að maður fer að vinna hjá fyrirtæki í heilt ár til þess að safna í reynslubankann og læra hvernig það er að vera viðburðastjórnandi.

Fjölmenningarborg

Aðspurð segir Árdís að sér líki lífið á Bretlandi vel. „Ég er mjög ánægð hér. Það er mikil fjölmenning í borginni og manni finnst maður alltaf vera velkominn, allir eru mjög kurteisir og vinalegir. Bournemouth er mjög sunnarlega í Bretlandi, alveg við suðurströndina og þeir búa svo vel að hér er besta veðrið, sem er að sjálfsögðu stór plús!“

En hvernig skyldi hún sjá framtíðina fyrir sér að námi loknu? „Það er erfitt að segja. Ég vona að ég verði að vinna hjá skemmtilegu fyrirtæki sem býður upp á fjölbreytilegan vinnudag. Draumurinn er svo að opna mína eigin viðburðastofu í framtíðinni“ segir Árdís að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert