Missti af 10 milljóna króna vinningi

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hæstiréttur sýknaði í dag Happdrætti Háskóla Íslands af skaðabótakröfu karlmanns. Maðurinn hafði samið um það við happdrættið að happdrættismiði yrði endurnýjaður mánaðarlega með skuldfærslu á kreditkort hans. Hins vegar hafði skuldfærslunni verið hafnað tæpum mánuði áður en 10 milljóna vinningur kom á miðann.

Hæstiréttur taldi að skýrt hefði komið fram í skilmálum samnings mannsins og HHÍ að miði væri ekki gildur nema greiðsla hefði borist tímanlega fyrir útdrátt. Fyrir vikið hefði það verið á ábyrgð mannsins að sjá til þess að hægt væri að skuldfæra kort hans fyrir endurnýjun miðans. Fram kom í málinu að í 1.703 tilvikum í starfsemi happdrættisins frá 2009-2017 hefði komið vinningur á miða sem ekki hefði verið greitt endurnýjunariðgjald af. Í öllum þeim tilfellum hefðu mál verið afgreidd með sama hætti að einu frátöldu.

Hæstiréttur taldi að þótt HHÍ hefði í eitt skipti mismunað þátttakendum í happdrættinu lægi engu að síður fyrir að mál mannsins hefði verið afgreitt í samræmi við önnur tilvik. því gæti hann ekki reist kröfu sína um skaðabætur á því að við úrlausn hans máls yrði öðru sinni vikið frá jafnræðissjónarmiðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert