Síðasti „hvellurinn“ í langri hrinu

Leiðindaveður hefur sett mark sitt á febrúar.
Leiðindaveður hefur sett mark sitt á febrúar. mbl.is/Harpa

Spár gera ráð fyrir enn einu leiðindaveðrinu síðdegis á morgun og annað kvöld. Veðurfræðingur segir þó huggun harmi gegn að allt líti út fyrir að hvellurinn á morgun sé sá síðasti í bili.

„Þessi ótíð heldur áfram,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, við mbl.is. „Þetta er kannski það síðasta í lotunni, við vonum það allavega.“

Haraldur bendir á að veðrið í dag hafi ekki verið neitt frábært en það verði mun verra á morgun þegar það fer að hvessa og rigna. Spár gera ráð fyrir því að veður nái hámarki síðdegis á morgun og annað kvöld.

Það byrjar fyrst að rigna og blása nokkuð hressilega á suðurhluta landsins upp úr hádegi á morgun og það verður talsverð rigning seinni partinn. „Eins og maður myndi segja þá er þetta bara rok og rigning. Það verður hvasst á öllu landinu en aðeins hlýrra en í lægðinni í gær og mest af þessu verður rigning,“ segir Haraldur.

Gert er ráð fyrir 5 til 10 stiga hita á öllu landinu annað kvöld og því ætti snjó að taka upp af gangstéttum og götum. „Það er því eitthvað gott ef við lítum á jákvæðu hliðarnar,“ segir veðurfræðingurinn.

Okkur sýnist að þetta sé síðasta óveðrið í þessari hrinu, sem hefur eiginlega verið allur febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert