Bragi í ársleyfi frá Barnaverndarstofu

Bragi Guðbrandsson er nú á leið í ársleyfi sem forstjóri …
Bragi Guðbrandsson er nú á leið í ársleyfi sem forstjóri Barnaverndarstofu.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, er nú farinn í eins árs leyfi frá stofnuninni að því er fram kemur í tilkynningu frá Velferðarráðuneytinu. Heiða Björg Pálmadóttir, staðgengill Braga, staðfesti í samtali við mbl.is að hún taki við forstjórastarfinu á meðan.

Á fundi ríkisstjórnar í morgun var samþykkt að sækjast eftir sæti fyrir Íslands hönd í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Verður Bragi í kjöri til nefndarinnar, en í henni sitja 18 sérfræðingar Hann fær eins árs leyfi frá mánaðamótum vegna þessa og hættir störfum hjá Barnavernd ef hann nær kjöri.

Fram kemur í tilkynningunni að Bragi muni, samhliða undirbúningi vegna framboðs síns, sinna „afmörkuðum verkefnum í Velferðarráðuneytinu sem snúa að tilteknum áherslumálum ráðherra í málefnum barna samkvæmt samningi þar að lútandi“.

Það er Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, sem veitir Braga leyfið, en nái hann kjöri lætur hann af embætti sínu sem forstjóri Barnaverndarstofu. Segir í tilkynningunni að þetta sé gert þar sem áhersla er lögð á að nefndarmenn séu óháðir barnverndaryfirvöldum í einstökum ríkjum SÞ.

Er staða Braga sem frambjóðanda Íslands talin sterk vegna áratuga reynslu hans af málaflokknum og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði. 

Kynnti barnaverndarnefndum breytingarnar

Velferðarráðuneytið greindi fyrr í morgun frá því að breytingar væru væntanlegar á sviði barnaverndar. Endurskoða eigi eftirlit með öllu barnaverndarstarfi í landinu og ráðast í heildarendurskoðun barnaverndarlaga. Þá verði settar skýrar formkröfur um samskiptahætti stjórnvalda sem gegna hlutverki á sviði barnaverndar.

Fram kom í tilkynningunni að ráðherra, hafi í dag fundað með formönnum barnaverndarnefnda Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Kópavogs og kynnt þeim áformaðar breytingar.

For­menn þess­ara barna­vernd­ar­nefnda leituðu til vel­ferðarráðuneyt­is­ins síðastliðið haust vegna sam­skipta við Barna­vernd­ar­stofu og for­stjóra henn­ar og lögðu fram um­kvart­an­ir þar að lút­andi.

Sagði í tilkynningunni að ráðuneytið hafi tekið umkvartanirnar til efn­is­legr­ar um­fjöll­un­ar, sem nú sé lokið, og að niður­stöðurn­ar hafi verið kynnt­ar aðilum máls­ins.

mbl.is