Skiptu um sæti eftir ölvunarakstur

Húsnæði Landsréttar að Vesturvör.
Húsnæði Landsréttar að Vesturvör. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Landsréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms um að svipta karlmann á fertugsaldri ökurétti ævilangt og að hann skuli sæta fangelsi í 15 mánuði. Stöðvaði lögreglan manninn á Reykjavíkurvegi í apríl 2016, en þá höfðu lögreglumenn mætt bílnum og strax þekkt ökumanninn. Vissi lögreglan til þess að hann væri ekki með ökuréttindi og veitti því bílnum eftirför.

Bílnum var hins vegar ekið á bak við hús og þegar lögregla kom að bílnum var eiginkona mannsins, sem hafði setið í farþegasætinu í bílstjórasætinu. Samkvæmt dómi héraðsdóms sögðu lögreglumennirnir að þeir hefðu séð bílinn nánast allan tímann þangað til þeir komu að honum bak við húsið. Hafi þeir aðeins misst af honum í örskotsstund.

Þeir hafi hins vegar strax þegar þeir komu fyrir hornið séð bílstjórahurðina opna, manninn á leið fram fyrir bílinn að farþegasætinu og konuna að færa sig milli sæta.

Í blóð- og þvagsýnum sem tekin voru af ákærða var að finna amfetamín, kókaín, metaamfetamín og tedrahýdrokannabinólsýra.

Segir í dómi Landsréttar að ekkert hafi komið fram í málinu sem rýri sönnunargildi vitnisburðar lögreglumannanna. Er dómur mannsins því staðfestur og var hann látinn greiða um 750 þúsund krónur í málskostnað. 

Maðurinn braut skilorð með broti sínu, en hann hefur ítrekað hlotið dóm síðan árið 2006, þá aðallega vegna brota á umferðarlögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert