Stormur og leiðindi í kvöld

Það er spáð leiðindaveðri í kvöld.
Það er spáð leiðindaveðri í kvöld. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Rigningin er að magnast upp fyrir suðaustan og það er orðið hvasst alveg syðst,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Leiðindaveðri, roki og rigningu, er spáð um allt land síðdegis og í kvöld.

Samkvæmt vefsíðu Vegagerðarinnar mælast 49 m/s í hviðum í Hvammi undir Eyjafjöllum. Birta segir að veðrið muni ná hámarki á suðvesturhluta landsins í kvöld með roki og rigningu.

„Þetta verður líklega verst um kvöldmatarleytið, upp úr sjö. Síðan seint í kvöld dregur úr vindi en lægir ekki,“ segir Birta en það fer að blása hressilega á höfuðborgarsvæðinu síðdegis.

Það verður stormur um allt land í kvöld en skilin ganga yfir landið, frá suðvestri til norðausturs og ýta vindinum á undan sér.

„Við sjáum fram á alveg þó nokkra rigningu á Suður- og Vesturlandi í kvöld,“ segir Birta en þar er fólk hvatt til að hreinsa frá niðurföllum og huga að lausum munum. 

Einnig má gera ráð fyrir því að færð á þjóðvegum geti spillst. Fram kem­ur á vef Vega­gerðar­inn­ar, að bú­ast megi við að færð geti spillst á milli kl. 12 og 15 á Hell­is­heiði, Þrengsl­um og Mos­fells­heiði þar til hlýn­ar.

Bú­ast má við erfiðum akst­urs­skil­yrðum á fjall­verg­um á Vest­ur­landi og Vest­fjörðum vegna flug­hálku þegar vind­ur vex seinnipart­inn í dag og í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert