Þungar og óviðunandi vikur

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Golli

„Síðustu vikur hafa verið þungar undir fæti hjá okkur og óviðunandi á stundum,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í vikulegum forstjórapistli sínum.

Hann segir að fjöldi fólks leiti til spítalans á degi hverjum og að flæðishindranir í starfseminni séu spítalanum fjötur um fót.

„Við höfum átt í nánu samstarfi við velferðarráðuneytið í þessari þungu stöðu og í morgun sóttu fulltrúar þess stöðufund og kynntust hvernig við saman gerum hvað við getum til að liðka til í starfseminni,“ bætir Páll við og segir samræðurnar hafa verið gagnlegar og samstarfsviljinn sé þeim dýrmætur.

Í pistlinum segir Páll frá hápunkti hins árlega Bráðadags Landspítala, þverfaglegri ráðstefnu flæðisviðs spítalans sem ber yfirskriftina Fjölbreytileiki í bráðaþjónustu og verður haldin 2. mars.

Þar fjalla átján íslenskir og fjórir erlendir fyrirlesarar um ýmis verkefni og rannsóknir.

„Við höldum áfram að leita allra leiða til að tryggja sjúklingum okkar örugga þjónustu. Stóru sóknarfærin fram undan eru trúlega frekar í samstarfi mismunandi þátta velferðarþjónustunnar,“ segir Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert