Betra útlit til ferðalaga

Í stað vetrarlægða í runum tekur við letilegt háþrýstisvæði.
Í stað vetrarlægða í runum tekur við letilegt háþrýstisvæði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nokkur straumhvörf eru að verða með veðrinu í dag að sögn veðurfræðings Vegagerðarinnar.  Upp frá þessu mun veðrið róast og í stað vetrarlægða í runum tekur við letilegt háþrýstisvæði. Engu að síður má til morguns búast við éljum á fjallvegum og eins frystir í bjartviðri ansi víða í nótt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni, og tekið fram að það sé betra veður til ferðalaga. Þar segir ennfremur að símkerfi Vegagerðarinnar sé bilað í augnablikinu og því sé sími 1717 óvirkur. Unnið er að viðgerð. 

Færð og aðstæður

Flestar leiðir á Suðurlandi eru greiðfærir en þó eru hálkublettir í Kjósarskarði og meðfram austanverðu Þingvallavatni. 

Á Vesturlandi eru flestar leiðir greiðfærar en hálka á Laxárdalsheiði og hálkublettir á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku. Fróðárheiði er lokuð og þar er enn hvasst.

Á Vestfjörðum eru vegir á láglendi að mestu greiðfærir en hálka eða hálkublettir eru á fjallvegum. Snjóþekja er á Hálfdán og varað er við flughálku í sunnanverðum Patreksfirði.

Á Norður- og Austurlandi eru flestir vegir orðnir greiðfærir en hálkublettir eru á Öxnadalsheiði.  Á Austurlandi er sums staðar hvasst á fjallvegum en vegir eru greiðfærir með suðausturströndinni. 

Skemmdir á slitlagi

Í því veðurfari sem hefur gengið yfir að undanförnu hefur mikið borið á slitlagsskemmdum á vegum. Á þessum árstíma er aðeins hægt að bregðast við með ófullkomnum bráðabirgðaviðgerðum og því eru vegfarendur beðnir að sýna sérstaka aðgát við þessar aðstæður.

Vegfarendur á Austurlandi, á milli Fáskrúðsfjarðar og Breiðdalsvíkur eru varaðir við mögulegum slitlagsblæðingum og að slitlagskögglar sem brotna af bílum geta verið varasamir. Mikilvægt að draga úr hraða þegar bílar mætast. Skoðið dekkin áður en haldið er í langferð og hreinsið með dekkjahreinsi ef vart verður við tjöru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert