Rigndi fyrir hálfan mánuð í gær

Mikið hefur rignt á landinu síðustu daga.
Mikið hefur rignt á landinu síðustu daga. mbl.is/Hari

Mest úrkoma á landinu í nótt var í Reykjavík. Á sólarhring, frá klukkan 9 í gærmorgun til 9 í morgun, mældist 33,3 millimetra úrkoma í borginni. Er það nær helmingur meðalúrkomu í febrúarmánuði, en hún er um 72 millimetrar í Reykjavík. 

Næstmest var úrkoman í Stykkishólmi, um 16,9 millimetrar frá klukkan 18 í gær til 9 í morgun, og á Hólum og Keflavíkurflugvelli þar sem mældust 12,7 millimetrar á sama tímabili. Mjög mikið rennsli er í ám víða á Suður- og Austurlandi. Vegna mikillar rigningar var einnig gefin út viðvörun um aukna hættu á skriðuföllum vestan frá Eyjafjöllum og austur á Austfirði. Sú viðvörun er enn í gildi þótt hætt sé að rigna. 

Von er á vindi og rigningu aftur upp úr hádegi á morgun, en að sögn Þorsteins V. Jónssonar veðurfræðings verður veðrið ekki eins slæmt og í gær. Vindhraði gæti þó talist hvassviðri eða stormur á stöku stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert