Rökkvi þefaði upp 100 gr. af kannabis

Maðurinn var að koma til Eyja með Herjólfi.
Maðurinn var að koma til Eyja með Herjólfi. mbl.is/Sigurður Bogi

Síðdegis í gær var maður handtekinn þegar hann var að koma með Herjólfi til Vestmannaeyja en í fórum hans fundust um 100 gr. af kannabis. Þetta er annað málið á einni viku þar sem nokkuð magn fíkniefna finnst á farþega sem er að koma til Eyja.

Frá þessu greinir lögreglan í færslu á Facebook.

Þar kemur einnig fram, að til aðstoðar lögreglumönnum við leit var fíkniefnahundurinn Rökkvi sem er í eigu embættisins. Maðurinn viðurkenndi að eiga efnið. Að yfirheyrslu lokinni var honum sleppt.

Lögreglan greinir jafnframt frá því, að í vikunni sem leið hafi verið gerð leit hjá manni sem var að koma með flugi og fundust um 30 gr. af kannabis hjá honum.

Tvö önnur minniháttar fíkniefnamál komu upp hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í síðustu viku.

Nokkur erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum síðustu nótt en töluverður fjöldi fólks var að skemmta sér. Í nótt gistu tveir einstaklingar fangageymslu lögreglunnar. Annar þar sem hann var ósjálfbjarga vegna ölvunarástands en hinn vegna líkamsárásar sem gerðist fyrir utan skemmtistaðinn Lundann. Það var ekki um alvarlega áverka að ræða. Honum var sleppt eftir skýrslutöku í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert