Snappari í aðalhlutverki

Hjálmar Örn Jóhannsson er með tíu þúsund fylgjendur á snapchat …
Hjálmar Örn Jóhannsson er með tíu þúsund fylgjendur á snapchat og leikur nú aðalhlutverkið í myndinni Fullir vasar. Ásdís Ásgeirsdóttir

Hinn sköllótti, freknótti, hressi maður með áberandi mikið frekjuskarð, Hjálmar Örn Jóhannsson, hefur skemmt fólki í nokkur ár sem íslensk snappstjarna. Tíu þúsund manns fylgjast daglega með þessum hálffimmtuga manni sem vinnur á daginn hjá fjölskyldufyrirtækinu Brimborg. Heima í Árbænum er allt með kyrrum kjörum og Hjálmar er heima, enda í fæðingarorlofi þessa mánuðina. Á meðan litla barnið Logi sefur úti í vagni segir Hjálmar frá því hvernig bekkjartrúðurinn endaði á hvíta tjaldinu en hann leikur nú aðalhlutverkið í nýrri íslenskri kvikmynd.

Trúðurinn í bekknum 

Hjálmar segir að alltaf hafi verið stutt í grínið, alveg frá blautu barnsbeini.
„Ég hafði rosalega gaman af því að fá fólk til að hlæja. Ég var trúðurinn í bekknum og í menntaskóla tók ég þátt í uppistandskeppni og lenti í þriðja sæti. Þetta var skemmtilegt en á þeim tíma var enginn stökkpallur í þetta, uppistand var ekkert byrjað. Þannig að þetta fjaraði bara út og eftir á að hyggja er ég rosalega feginn að þessi athygli sem ég er að fá núna sé að koma svona seint í lífinu. Ég er ekkert viss um að ég hefði höndlað það á yngri árum, eins og ég var. Mér finnst stundum eins og mér hafi verið ætlað að gera þetta svona seint.“

Það hefur alltaf verið stutt í grínið hjá Hjálmari.
Það hefur alltaf verið stutt í grínið hjá Hjálmari. Ásdís Ásgeirsdóttir

Sprakk allt með Hvítvínskonunni 

Hjálmar fær útrás fyrir sprelligosanum í sér í gegnum snapchat-forritið þar sem hann kemur fram í gervi ýmissa persóna sem hann hefur skapað. Ævintýrið hófst fyrir fimm árum.
„Árið 2013 keypti ég gamlan snjallsíma og setti inn þetta snapchat-forrit. Fyrst var ég bara með vini og vandamenn, tíu, fimmtán manns. En á einu og hálfu ári var ég kominn með 500 manns,“ segir hann.

„Mér fannst svo merkilegt að fimm hundruð manns væru að fylgjast með mér, alveg magnað. Þá fór ég að gera lítil leikrit, og búa til karaktera. Ég gerði oft langar sögur, svona sketsa. Ég notaði forritið til að koma á framfæri því sem ég vildi skapa. Svo vatt þetta upp á sig og allt í einu var ég kominn með tvö þúsund, svo fimm þúsund og er með tíu þúsund fylgjendur í dag. Það er óraunverulegt að vera með svona marga, en ég er samt mjög þakklátur að það séu svona margir að horfa.“

Það þekkja margir Hjálmar Örn og persónur hans, eins og Hvítvínskonuna, Bjarna gröfumann, Illa Settan og Halla Hipster.

„Það sprakk allt þegar ég kom með Hvítvínskonuna, hún er gríðarlega vinsæl. Hún er byggð á fólki í kringum mig, eins og margir af mínum persónum eru. Ég er með þessa týpu á snappinu, og hún sendi mér einu sinni skilaboð og spurði: „Hjálmar, er þetta ég sem þú ert að leika?“ Og ég roðnaði heima hjá mér, og svitnaði, því það var rétt,“ segir hann og hlær en bætir við að Hvítvínskonan sé blanda af mörgum konum sem hann fylgist með.

„Þetta eru svona flippaðar týpur, eru með hatta í partíum, fara í utanlandsferðir og eru alltaf að fá sér. Það er alltaf rosalega gaman hjá þeim. Hvítvínskonan lifir alltaf í núinu, og er alltaf að finna sér ástæðu til að fá sér að drekka,“ segir hann og bætir við að hann fái mikla útrás að leika þessa karaktera.

Hvítvínskonan er ein vinsælasta týpan sem Hjálmar hefur skapað. Hann …
Hvítvínskonan er ein vinsælasta týpan sem Hjálmar hefur skapað. Hann segir hana alltaf finna sér tækifæri til að fá sér í glas. Ljósmynd/Brynja Kristinsdóttir


Heiður að leika með Ladda

Hjálmar leikur aðalhlutverkið í Fullir vasar, nýjastu kvikmynd leikstjórans og handritshöfundarins Antons Sigurðssonar. Hún fjallar um fjóra menn sem ræna banka til að eiga fyrir tugmilljóna skuldum og í kjölfar þess fer í gang atburðarás sem enginn hefði getað séð fyrir. Sannköllað hasar-grínmynd.

„Mér fannst Laddi geggjaður þegar ég var yngri, horfði á allt sem hann gerði og hlustaði á allar plöturnar. Hann er magnaður, og að leika á móti honum var þvílíkur heiður. Að vera kominn á þennan stað, 45 ára, með enga leiklistarmenntun, og vera þarna. Að leika á móti Ladda gerir mann betri leikara. Eins með Hilmi Snæ, það er eitthvað magnað við þá báða. Og Ólafía Hrönn er líka snillingur, ég tengdi mest við hana á settinu. Hún er svo skemmtileg.“


Hjálmar fékk að leika á móti átrúnaðargoðinu Ladda og segir …
Hjálmar fékk að leika á móti átrúnaðargoðinu Ladda og segir það hafa verið mikinn heiður. Ljósmynd/Anna Bender

Gæti verið stór hrekkur

Ég heyrði því fleygt að þú hefðir jafnvel haldið í byrjun að þetta væri eitthvert grín hjá Áttunni, að það væri í raun engin kvikmynd. Er það satt?

„Algjörlega, þetta er góður punktur. Ég var búinn að vera þarna í tvo daga og var að horfa í kringum mig á strákana í Áttunni og hugsaði innst inni, þetta gæti allt verið einn stór Áttu-hrekkur. Þetta væri það magnaðasta sem þeir hefðu gert, fá einhvern gaur til að halda að hann væri að leika í bíómynd, allt í gríni. Láta hann hafa handrit, fara á fundi og leika í tvo daga eins og herforingi. En svo sá ég að það var ekki grín,“ segir hann og hlær.

„En innst inni var alltaf smá efi, er kannski bara verið að gera grín að mér? Því það er ekkert rökrétt að ég ólærður 45 ára fari bara að leika í bíómynd eftir að hafa verið á snappi.“
Hjálmar segir tökurnar hafa verið stífar en mjög skemmtilegar. „Mér leiddist aldrei, þetta var bara æði. Það er ótrúlegt hvað getur gerst í lífinu.“

Viðtalið í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert