Tók u-beygju í lífinu

Magnús Guðberg Sigurðsson þroskaþjálfi og Kristján Vignir Hjálmarsson.
Magnús Guðberg Sigurðsson þroskaþjálfi og Kristján Vignir Hjálmarsson. Skjáskot úr myndbandinu Á vit hins óvænta

„Við erum miklir vinir og erum í reglulegu sambandi,“ segir Magnús Guðberg Sigurðsson þroskaþjálfi um félaga sinn Kristján Vigni Hjálmarsson sem hann kynntist fyrir 13 árum þegar hann hóf störf í íbúðakjarnanum Skipholti. Magnús hætti að vinna þar fyrir þó nokkru en þeir hafa verið vinir upp frá því. Kristján býr í Skipholti og nýtur þeirrar þjónustu sem þar er en hann notast við hjólastól.   

Þeir félagarnir eru í nýju myndbandi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar þar sem fólk er hvatt til að sækja um störf með fötluðum. Alls vantar í um 300 störf á sviðinu, bæði föst störf og sumarstörf, að sögn Sigurveigar Helgu Jónsdóttur á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. 

„Við leitum að fólki sem hefur gaman af því að vinna með alls konar fólki. Við fengum ýmis hagsmunasamtök fatlaðs fólks með okkur í þessa vinnu og áttum við þau samráð alveg frá upphafi ferilsins,“ segir Sigurveig um átak Reykjavíkurborgar. 

 


 

 

Magnús var í rafvirkjanámi þegar hann byrjaði að vinna í Skipholti en tók u-beygju í lífi sínu eftir að hann kynntist Kristjáni og börnum með fötlun. Hann útskrifaðist sem þroskaþjálfi árið 2012. „Maður lærir að sjá hlutina öðruvísi og þetta er mjög gefandi,“ segir Magnús um vinnu með fötluðum.

Magnús starfaði sem rafvirki fyrir hrun en verkefnunum fækkaði eftir hrunið árið 2008 og úr varð að hann fór að vinna í leikskóla. Þar unnu með honum þrír þroskaþjálfar. „Mér fannst starfið þeirra mjög spennandi og laðaðist að því sem þeir voru að gera. Ég fór alltaf að vinna meira með fötluðu börnunum á leikskólanum,“ segir Magnús. Hann sótti um þroskaþjálfanám og útskrifaðist sem slíkur eins og fyrr segir fyrir tæpum sex árum.  

Vill hafa starfsmenn skemmtilega og opna

Magnús hvetur fólk til að sækja um starf með fötluðum. Spurður hvers vegna hann telji fáa sækja um þessi störf telur hann líklegt að sumir mikli þetta fyrir sér og frekari fræðslu þurfi um starfið. „Fólk heldur kannski að þetta sé erfiðara en það er sem það er ekki. Auðvitað geta komið tímar þar sem þetta er mjög krefjandi en þetta starf er fyrst og fremst mjög gefandi,“ segir Magnús.  

„Þeir verða að vera skemmtilegir og opnir. Það þýðir enga feimni í þessu starfi,“ segir Kristján Vignir Hjálmarsson, spurður hvaða eiginleikum starfsmenn þurfa að búa yfir til að starfa á velferðarsviði. Kristján bendir á að margir eignist góða vini í gegnum þetta starf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert