Allt flug liggur niðri í Keflavík

Flugvallarstarfsmenn reisa landgögubrú við vél Icelandair.
Flugvallarstarfsmenn reisa landgögubrú við vél Icelandair. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Seinkun verður á öllu flugi um Keflavíkurflugvöll næstu klukkustundir. Ástæðan er sú að allar landgöngubrýr, sem ferja fólk á milli vélar og flugstöðvar, hafa verið teknar úr notkun vegna mikils vinds.

Þetta staðfestir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við mbl.is. Að sögn Guðjóns er miðað við að brýrnar séu ekki notaðar þegar vindhraði fer yfir 50 hnúta, um 25 metra á sekúndu. Sömu sögu er að segja af stigabílum, sem stundum eru notaðir í sama tilgangi.

Farþegar í mörgum vélum, þar á meðal átta vélum Icelandair, sem eru nýlentar, bíða þess einnig að vera hleypt frá borði. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir fyrirséð að seinkun verði á Ameríkuflugi kvöldsins vegna þessa.

Vindur á Miðnesheiðinni hefur verið um og yfir 20 metrum á sekúndu það sem af er degi, en farið yfir 25 metra á sekúndu í hviðum. „Þetta er okkar mat út frá öryggissjónarmiðum og þeim reglum sem við fylgjum,“ segir Guðjón Helgason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert