Braut gegn barni og hló í kjölfarið

Dómurinn var sammála því mati lögreglu að sterkur grunur væri …
Dómurinn var sammála því mati lögreglu að sterkur grunur væri um að kærði hefði framið gróf brot. mbl.is/Kristinn

Einn þeirra sem kært hefur fyrrverandi starfsmann Barnaverndar Reykjavíkur fyrir kynferðisofbeldi gegn sér þegar hann var á barnsaldri, segist hafa upplifað brotin að nýju þegar hann hitti manninn fyrir tilviljun í verslun fyrir nokkrum árum. Hann hafi kjölfarið farið að deyfa sig með svefnlyfjum og leiðst út í kannabisneyslu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir manninum sem birtur var á vef Landsréttar í dag, en Landsréttur staðfesti á föstudag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að maðurinn skyldi sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 16. mars næstkomandi.

Kynferðisbrotadeild lögreglunnar hefur til rannsóknar samtals fimm mál þar sem kærði er grunaður um að hafa beitt einstaklinga á aldrinum 6 til 19 ára grófu ofbeldi, en í einu málinu er um brot gegn fleiri en einum einstaklingi að ræða.

Málunum er öllum lýst í úrskurðinum, en í fyrsta málinu er um að ræða brot gegn þremur systkinum, tveimur drengjum og einni stúlku. Annar drengjanna var sá sem kærði manninn fyrir meint brot í ágúst síðastliðnum, en málið var ekki tekið til rannsóknar fyrr en í desember. Á meðan starfaði maðurinn á skammtímaheimili fyrir unglinga í Breiðholti, líkt og hann hafði gert frá árinu 2010.

Það var ekki fyrr en réttagæslumaður drengsins hafði margítrekað kæruna til lögreglu og tekið fram að í kær­unni kæmi fram að maður­inn ynni með börn­um í dag að málið var loks tekið til skoðunar. Leiddi það til þess að maðurinn var handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 19. janúar síðastiðinn.

Lögregla hefur viðurkennt að mistök hafi orðið til þess að svo mikill dráttur varð á rannsókn málsins. Í skýrslu sem gefin var út 12. febrúar í kjölfar innri skoðunar lögreglu á ferli og rann­sókn máls­ins kemur fram að mistökin felast einkum í því að við frum­grein­ingu hafi ekki verið at­hugað strax með starfs­vett­vang manns­ins í ljósi þeirra ásak­ana sem komi fram í kær­unni. Er aðkoma stjórn­enda sögð hafa verið ómark­viss, verk­skipt­ing óljós og aðhald um fram­vindu máls­ins ekki viðun­andi.

Bað um að frekar væri níðst á sér en systur sinni

Fram kemur í úrskurðinum að hinn kærði hafi reglulega boðið syni vinafólks síns að gista hjá sér, en hann var einhvers konar stuðningsfulltrúi drengsins. Í þessum heimsóknum á maðurinn að hafa brotið á drengnum, þegar hann var á aldrinum 8 til 14 ára. Systkini drengsins gistu líka heima hjá manninum í einhver skipti.

Drengurinn hafi lýst því í skýrslutökum hjá lögreglu að hinn kærði hafi viljað að hann svæfi uppi í rúmi hjá honum. Þar hafi hann fróað honum og sjálfum sér um leið. Þá segir drengurinn manninn hafa gefið sér töflur sem hafi gert hann þreyttan í að minnsta kosti þrjú skipti, en í eitt skipti hafi hann fundið fyrir því að maðurinn snerti á honum bakið og rassinn áður en hann sofnaði. „Þá hafi brotaþoli lýst því að í þessi þrjú skipti hafi hann fundið fyrir sársauka í endaþarmi þegar hann vaknaði og í eitt skiptið hafi blætt úr endaþarmi.“

Drengurinn mun einnig hafa lýst því að myndavél hafi verið á heimili mannsins sem hann mátti ekki skoða og í eitt skipti, eftir að hann fékk töflu, hafi hann heyrt smelli eins og verið væri að taka af honum myndir.

„Síðasta skiptið sem brotaþoli hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu kærða hafi verið er þeir hafi verið á leið í útilegu á Apavatni. Á leiðinni hafi kærði, á meðan hann var að keyra, farið með höndina inn undir buxur brotaþola og fróað honum og hlegið svo eftir á.“

Systir drengsins hefur einnig lagt fram kæru á hendur manninum fyrir „að hafa nuddað henni upp og niður eftir klofinu á sér“ þegar hún svaf uppi í rúmi hjá honum. Þá hafi bróðir hennar, sem líka svaf í rúminu, hins vegar „gripið inn í og látið kærða frekar gera þetta við sig en litlu systur sína.“

Eldri bróðir þeirra hefur líka lagt fram kæru á hendur manninum „fyrir að hafa sett lim í endaþarm sinn“ og fyrir að hafa farið í sturtu með honum þegar hann var 12 ára.

Kom sér undan manninum í eitt skipti 

Tveir systursynir mannsins hafa einnig kært hann fyrir kynferðisbrot. Annar segir manninn hafa fróað honum þangað til hann fékk sáðlát þegar hann var 12 eða 13 ára, en á þeim tíma upplifði hann það þannig að maðurinn væri að kenna honum að stunda sjálfsfróun. Sagði hann kærða einnig hafa káfað á sér eftir þetta og gert sig líklegan til að gera eitthvað sambærilegt aftur. Hann hafi hins vegar hætt þegar drengurinn sagði honum að hætta.

Hinn systursonurinn segir manninn ítrekað hafa brotið gegn sér þegar hann var á aldrinum 6 til 12 ára. Segir hann kærða hafa fróað honum og látið hann fróa sér. Þá hafi einnig verið munnmök á báða bóga. Þetta hafi gerst á kvöldin þegar hann gisti í rúmi mannsins. Þá segir systursonurinn kærða einnig hafa brotið gegn sér á ferðalagi sem hann fór í með manninum, og foreldrum hans; ömmu sinni og afa, til Danmerkur. Þar „hafi kærði reynt að setja getnaðarlim sinn í endaþarm brotaþola, sem náð hafi að koma sér undan.“

Horfði á og fiktaði við kynfæri sín 

Æskuvinur síðarnefnda systursonarins hefur einnig kært manninn fyrir kynferðisbrot gegn sér, sem eiga að hafa átt sér stað þegar hann var á aldrinum 7 til 9 ára. Segir hann brotin hafa átt sér stað þegar hann gisti með systursyni mannsins á heimili hans. Þeir hafi meðal annars farið með honum í bíltúra, sund og fengið að spila tölvuleiki.

Segir hann manninn hafa fróað honum og fiktað við kynfæri sín á meðan. Þá hafi hann einnig látið drengina tvo fróa hvor öðrum á meðan hann horfði á og fiktaði við kynfæri sín. Segist hann hafa verið svo ungur að hann „hafi talið þetta eðlilegan hluta af lífinu.“

Segir hann meint brot hafa haft mikil áhrif á líf hans. „Hann hafi fengið martraðir, upplifað mikla skömm fyrir að hafa ekki getað gert neitt til að koma í veg fyrir að kærði bryti gegn öðrum börnum.“ Þegar hann sá svo kærða bregða fyrir í verslun árið 2014 fór honum að líða mjög illa og upplifði brotin að nýju. „Í kjölfarið hafi hann farið að deyfa sig með því að misnota svefnlyf og nota kannabisefni og hafi farið í meðferð sama ár.“

Lét sem hann svæfi þegar brotið var á honum 

Annar sonur vinafólks mannsins er einnig í hópi kærenda. Hann er einhverfur og lögblindur í dag. Segir hann manninn hafa brotið gegn sér þegar hann var 11 og 13 ára og svo aftur þegar hann var 19 ára. Brotin hafi meðal annars átt sér stað á heimili hans í Svíþjóð þegar kærði gisti þar á dýnu í herbergi hans. Þá hafi hann meðal annars fróað honum og haft við hann munnmök. Síðar þegar maðurinn gisti aftur á heimili hans reyndi hann að hafa samræði við hann í endaþarm, án árangurs. Hann hafði hins vegar við hann munnmök og fróaði honum. Maðurinn gisti einnig á heimili hans þegar hann var 19 ára og hafði þá samfarir við hann í endaþarm. Lét hann þá sem hann svæfi.

Segir framburð brotaþola ekki duga 

Fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að maðurinn neiti sök, en hann hefur lýst því í skýrslutökum hjá lögreglu að brotaþolar og fleiri hafi oft gist hjá honum og þá sofið í sama rúmi og hann. Segist hann vera fjölskyldumaður sem hafi verið kippt úr sínu daglega lífi og að framburður brotaþola einn og sér nægi ekki til þess að talinn verði sterkur grunur um refsiverða háttsemi af hans hálfu. Segir hann framburð sumra brotaþola vera óskýran og í einhverjum tilvikum fái ekki stoð í framburði annarra. Það séu ekki almannahagsmunir af því að hann verði sviptur frelsi sínu frekar.

„Sérstaklega gróf kynferðisbrot“

Lögregla byggir kröfu sína um gæsluvarðhald meðal annars á því að ætla megi að maðurinn muni halda brotum áfram á meðan máli hans er ólokið. Þá hafi brotastarfsemi mannsins verið sleitulaus frá árunum 1998 til 2010, byggt á þeim kærum sem lagðar hafa verið fram. Að mati lögreglu eru framburðir brotaþola trúverðugir, og fyrir utan systkinin þrjú, hafi þeir ekki borið saman bækur sínar, heldur gefið sig fram við rannsókn málsins. Þá séu atvik allra málanna keimlík og verknaðarlýsingar í flestum tilfellum þær sömu. Ekkert bendi til að um samantekin ráð brotaþola sé að ræða. Í málunum sé um að ræða sérstaklega gróf kynferðisbrot gegn börnum frá allt að 6 ára aldri, sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Dómurinn var sammála því mati lögreglu að sterkur grunur væri um að kærði hafi framið brot sem varða allt að tíu ára fangelsi eða meira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert