Miklar seinkanir á flugi

mbl.is/Sigurður Bogi

Seinkun er á mörgum flugferðum Icelandair frá Norður-Ameríku en aflýsa þurfti flugi félagsins frá London í gærkvöldi. Samkvæmt svörum Icelandair á samfélagsmiðlum til farþega skýrist þetta af slæmu veðri.

Á vef Keflavíkurflugvallar sést að flugferðum Icelandair frá Orlando, Denver og Seattle til Íslands var aflýst í gærmorgun og eins frá Kaupmannahöfn, Ósló og Heathrow-flugvelli í London seint í gærkvöldi.

Vélar sem áttu að lenda frá Stokkhólmi og Gatwick-flugvelli á tólfta tímanum í gærkvöldi lentu ekki fyrr en á fjórða tímanum í nótt. Flugi frá JFK-flugvelli í New York sem átti að lenda 6:15 hefur verið aflýst og flugi frá Newark-flugvelli, Washington og Chicago hefur verið frestað um nokkrar klukkustundir.

Eins urðu miklar seinkanir á flugi easyJet og Wizz Air frá Íslandi í gærkvöldi vegna storms á Keflavíkurflugvelli.

Flugi Icelandair til München sem fara átti í loftið klukkan 7:20 hefur verið seinkað til klukkan 13 í dag.

 

 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert