„Auðvelt að átta sig á hver á í hlut“

Sævar segir vegið að persónuvernd einstaklinga með svo ítarlegum upplýsingum.
Sævar segir vegið að persónuvernd einstaklinga með svo ítarlegum upplýsingum. mbl.is/Hari

„Mér finnst verið að virða þeirra persónuvernd að vettugi. Það er ekki verið að nafngreina fólkið, en það er verið að lýsa því með þeim hætti að það er mjög auðvelt að átta sig á því hver á í hlut. Þetta eru það alvarleg og viðkvæm mál sem varða einstaklinga sem eru mjög viðkvæmir.“

Þetta segir Sævar Þór Jónsson, réttargæslumaður ungs manns sem lagði fram kæru á hendur fyrrverandi starfsmanni Barnaverndar Reykjavíkur í ágúst síðastliðnum, vegna kynferðisbrota sem hann á að hafa framið gegn honum þegar hann var á barnsaldri. Landsréttur birti í gær gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manninum á heimasíðu sinni, en rétturinn staðfesti á föstudag áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum til 16. mars næstkomandi.

Auðvelt að finna út um hverja ræðir

Sævar er ósáttur við að úrskurðurinn hafi verið birtur með þeim hætti sem gert var, þar sem ítarlega er farið í atvikalýsingar og greint frá nákvæmum tengslum brotaþola við hinn kærða. Um er að ræða sjö brotaþola sem voru á aldrinum sex til nítján ára þegar meint brot voru framin. Í úrskurðinum kemur til að mynda fram að tveir brotaþola séu systursynir mannsins og að einn sé sonur vinafólks sem búið hafi í Svíþjóð.

„Þetta er ekki í samræmi við það sem Persónuvernd hefur fjallað um varðandi héraðsdóma almennt, að það þurfi að draga úr persónuupplýsingum og birtingu slíkra dóma. Þannig að persóna viðkomandi sé varin.“

Sævar bendir á lýsingarnar á tengslum brotaþola við kærða séu þannig í úrskurðinum að auðvelt að finna út um hverja er að ræða. Sérstaklega í ljósi þess að nafn mannsins hefur verið birt. „Mér finnst mjög bagalegt fyrir þetta fólk að þetta hafi gerst.“

Lögregla bað brotaþola um að tjá sig ekki

Sævari þykir einnig bagalegt að nákvæmar atvikalýsingar, eins og þær koma fram í lögregluskýrslum, séu nú komnar fram. „Það er verið að lýsa ferðum sem farið var í, upplifun einstaklinga og því sem gerðist. Auðvitað hefur eitthvað af þessu fólki tjáð sig í fjölmiðlum, en þarna er beinlínis verið að taka orðrétt upp úr skýrslutökum og fara mjög nákvæmlega í lýsingar. Það er óþægilegt,“ segir Sævar um upplifun sinna skjólstæðinga. „Þeim finnst sérstakt að sjá lýsingar úr skýrslutökum um atvik sem þau kannski hefðu ekki viljað tjá sig um opinberlega á þessu stigi málsins,“ bætir hann við.

Systkini unga mannsins sem lagði fram kæru í ágúst hafa einnig kært manninn og sinnir hann líka réttargæslu fyrir þeirra hönd. Var sá kærði stuðningsfulltrúi unga mannsins þegar hann var á aldrinum átta til fjórtán ára og gisti hann reglulega heima hjá honum. Systkini hans gistu einnig þar í nokkur skipti.

„Ég er líka ósáttur því ég fékk tölvupóst frá lögreglunni á sínum tíma þar sem ég var beðinn um að umbjóðendur mínir væru ekki að tjá sig um málið opinberlega. Af því það varðaði rannsóknarhagsmuni málsins. Ég bað þá umbjóðendur mína að tjá sig ekki frekar um málið. Síðan er bara birtur gæsluvarðhaldsúrskurður í Landsrétti með þeim hætti að er gengið enn lengra. Það er verið að upplýsa um hluti sem eru mjög nákvæmir. Mér finnst lögreglan ekki vera samkvæm sjálfri sér þarna. Lögreglan hefði átt að óska þess að þetta yrði ekki birt,“ segir Sævar sem telur það mjög slæmt fyrir meðferð slíkra mála að atburðum sé lýst opinberlega með svo nákvæmum hætti, sérstaklega þegar meintur brotamaður hefur ekki játað brotin.

Rannsókn lögreglu vel á veg komin

Líkt og áður kom var maðurinn úrskurðaður í gæsluvarðhald til 16. mars næstkomandi, en Sævar segist hafa fengið þær upplýsingar frá lögreglu að rannsókn málsins væri vel á veg komin.

Lögregla byggði kröfu sína um áframhaldandi varðhald meðal annars á því að ætla mætti að maðurinn myndi halda brotum sínum áfram á meðan málin hans væri ólokið. Að mati lög­reglu eru framb­urðir brotaþola trú­verðugir, atvik allra málanna keimlík og verknaðarlýsingar í flestum tilfellum þær sömu. Ekkert bendi til þess að um samantekin ráð brotaþola sé að ræða. Þá var í úrskurðinum tekið fram að um væri að ræða sér­stak­lega gróf kyn­ferðis­brot gegn börn­um frá allt að 6 ára aldri, sem geti varðað allt að 16 ára fang­elsi. Dóm­ur­inn var sam­mála því mati lög­reglu að sterk­ur grun­ur væri um að kærði hafi framið brot sem varða allt að tíu ára fang­elsi eða meira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert