„Ísland hefur rödd“

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefur vakið athygli fyrir framgöngu sína …
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefur vakið athygli fyrir framgöngu sína í mannréttindamálum fyrir hönd Íslands á þingi Mannréttindaráðs SÞ sem nú stendur yfir í Genf. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti í dag fund með Peter S. Cayetano, utanríkisráðherra Filippseyja, í Genf en ráðherra ítrekaði í ræðu sinni fyrir Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í gær at­huga­semd­ir sem hann hef­ur gert við ástand mann­rétt­inda­mála á Fil­ipps­eyj­um.

Cayetano óskaði eftir fundi með Guðlaugi af fyrra bragði. „Samtalið sem við áttum í dag var mjög hreinskiptið og það sem mér fannst vera gott var að hann talaði um það að filippeysk stjórnvöld væru tilbúin til þess að leyfa stofnunum Sameinuðu þjóðanna að koma og hafa eftirlit með því sem þarna fer fram, sem er það sem ég hef lagt áherslu á í mínum málflutningi,“ segir Guðlaugur í samtali við mbl.is.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Peter S. Cayetano utanríkisráðherra Filippseyja.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Peter S. Cayetano utanríkisráðherra Filippseyja. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur segir ráðherrann hafa samt sem áður haldið uppi málsvörn filippeyskra stjórnvalda en að á sama tíma sagðist hann vera tilbúinn að hleypa eftirlitsaðilum að.

„Það vakti athygli manns að hann skyldi biðja um þennan fund en það er í sjálfu sér ekki hægt að kvarta undan framgöngu hans á fundinum,“ segir Guðlaugur, sem sagðist jafnframt hafa greint sáttatón í ræðu ráðherrans í Mannréttindaráðinu.

Á fundinum greindi Guðlaugur starfsbróður sínum betur frá afstöðu Íslands til framgöngu filippeyskra stjórnvalda í baráttu gegn útbreiðslu fíkniefna. „Þótt við Cayetano værum ekki sammála að öllu leyti var andrúmsloftið á fundinum jákvætt. Orð eru til alls fyrst,“ sagði utanríkisráðherra að fundi loknum.

Framganga Íslands í málinu skilaði árangri

Forsaga málsins er sú að Ísland talaði á síðasta ári fyrir hönd næstum fjörutíu þjóða og gagnrýndi mannréttindabrot stjórnvalda á Filippseyjum. Ítrekaði Guðlaugur afstöðu Íslands í ræðu sinni í ráðinu í gær. Filippeyski ráðherrann kvaðst vonsvikinn yfir málflutningi Íslendinga. Stjórnvöld á Filippseyjum væru reiðubúin til að opna dyrnar fyrir þeim sem kynna vildu sér málin en væri mikilvægt væri að fólk myndaði sér ekki skoðun fyrirfram.

39 ríki samþykktu ályktun um mannréttindabrot filippeyskra stjórnvalda eftir forgöngu Íslands. „Það er augljóst að framganga okkar í málinu hefur haft áhrif og ég vonast til þess að í kjölfar þessa fundar munum við sjá filippeysk stjórnvöld starfa með stofnunum Sameinuðu þjóðanna í þessum málum.“

Meðal þess sem Guðlaugur lagði til í ræðu sinni í gær var að skora á stjórn­völd á Fil­ipps­eyj­um að samþykkja án skil­yrða eða tak­mark­ana heim­sókn frá er­ind­reka Mann­rétt­indaráðsins og sýna auk þess mann­rétt­inda­full­trú­an­um fulla sam­vinnu með því að taka án taf­ar á móti óháðri sér­fræðinga­nefnd til að meta ástandið.

Frétt mbl.is: Getum ekki staðið hljóð hjá

„Ég tel það vera jákvætt að ráðherrann hafi viljað ræða þetta beint en þetta er auðvitað til komið út af þeirri gagnrýni sem við höfum haft uppi í Mannréttindaráðinu og þeirri forgöngu sem íslenska fastanefndin hafði í kjölfarið í málefnum Filippseyja,“ segir Guðlaugur.  

Næstu skref eru þó ekki ákveðin en Guðlaugur er vongóður. „Vonandi er þetta upphafið af því að á komist samstarf en þetta eru auðvitað bara fyrstu skrefin.“

Skylda allra ríkja að berjast fyrir mannréttindum 

Framganga Íslands í mannréttindamálum hefur vakið athygli á þessu 37. þingi Mannréttindaráðsins sem stendur nú yfir í Sviss og segir Guðlaugur að það sé mikil hvatning að sjá að aðgerðir Íslands hafi áhrif.

„Það hefur verið eftir því tekið hvernig við höfum gengið fram þegar kemur að mannréttindamálum og almennt eru þau viðbrögð jákvæð og við munum ekki hætta því, síður en svo, það er okkur hvatning að sjá að það sem við erum að gera hefur áhrif og skiptir máli, en við reynum að nálgast það alltaf af ábyrgð og málefnalega.“

Guðlaugur segir að það hvíli skylda á öllum ríkjum að berjast fyrir mannréttindum í heiminum, stórum sem smáum. „Ísland hefur rödd og það er horft til okkar í mörgum málum þrátt fyrir að við séum lítið þjóðfélag og það er ánægjuleg, en því fylgir líka ábyrgð.“

Ráðherrar fulltrúa Mannréttindaráðsins ávarpa ráðið einu sinni á ári. Þess á milli sinnir fastanefndin verkefnum sínum. „Fólkið okkar hér í Genf er að vinna mjög þarft og gott starf. Það er í mörg horn að líta og þó svo að hún sé ekki fjölmenn er hún öflug. Við munum halda áfram að berjast fyrir þeim gildum sem að við höfum barist fyrir fram til þess. Ekki veitir af,“ segir Guðlaugur.

Brexit, norðurslóðir og málefni flóttamanna

Dagskrá Guðlaugs í Genf hefur verið þéttskipuð og í dag átti utanríkisráðherra einnig tvíhliða fund með Alfonso María Dastis Quecedo, utanríkisráðherra Spánar, þar sem efnahagsmál og útganga Breta úr Evrópusambandinu komu meðal annars til tals.

Síðdegis hitti utanríkisráðherra Chrystiu Freeland, utanríkisráðherra Kanada. Þau ræddu meðal annars  norðurslóðamál og fríverslunarmál. Freeland spurði um áhuga Íslendinga á þátttöku í samstarfi ríkja um grundvallarréttindi hinsegin fólks (Equal Rights Coalition) en utanríkisráðherra lýsti því yfir í ræðu sinni í Mannréttindaráðinu í gær að Ísland stefndi að taka þátt í því.

Utanríkisráðherra hitti einnig Filippo Grandi, flóttamannafulltrúa SÞ, í dag. Grandi þakkaði Íslendingum fyrir að taka vel á móti kvótaflóttafólki og fór um leið yfir þær áskoranir sem UNHCR, Flóttamannastofnun SÞ, stendur frammi fyrir.

Þá átti Guðlaugur Þór einnig fund með mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, Zeid Ra‘ad al Hussein, í heimsókn sinni til Genf. Lýsti mannréttindafulltrúinn yfir ánægju með jafnlaunavottun og sagðist gjarnan vilja fá að fylgjast með framkvæmd hennar. Loks hitti ráðherra Isabelle Durant, aðstoðarframkvæmdastjóra UNCTAD, stofnun Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og þróun. Þau ræddu meðal annars um mögulegt samstarf Íslands og UNCTAD í málefnum hafsins með sérstakri áherslu á smáeyríki.

Guðlaugur Þór ásamt Filippo Grandi, flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna.
Guðlaugur Þór ásamt Filippo Grandi, flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert