Viðhaldsþörf vegakerfisins brýn

Sigurður Ingi Jóhannsson, Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti …
Sigurður Ingi Jóhannsson, Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti stöðu vegamála og mat á útgjaldaþörf á ríkisstjórnarfundi sl. föstudag. mbl.is/Eggert

Fjárveitingar til vegamála hafa undanfarin ár verið langt undir viðhalds- og framkvæmdaþörfum. Á sama tíma hefur akstur á vegum hins vegar aukist verulega. Þetta kom fram í samantekt sem Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi sl. föstudag.

Uppsöfnuð viðhaldsþörf er sögð nema um 65 milljörðum króna, þar sem fjárveiting til viðhalds vega hafi verið umtalsvert lægri en þörfin undanfarin ár og því liggja vegir víða undir skemmdum. Eins er þörfin fyrir styrkingar og endurbætur vega mikil og uppsafnaður vandi vegna þessa talin nálægt 50 milljörðum króna.

Í fréttatilkynningu frá Samgönguráðuneytinu segir að vaxandi ferðaþjónusta sé stór þáttur í aukinni viðhalds og framkvæmdaþörf, en í fyrra  jókst akstur um allt að 11%.

Bent er á að framkvæmdir séu háðar verkefnabundnum fjárveitingum og t.am. sé sú framkvæmd að tvöfalda stofnleiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbraut, Suðurlandsveg og Vesturlandsveg um Kjalarnes metin á um 60 milljarða króna. Heildarframlög til nýframkvæmda árið 2018, eru hins vegar ekki nema 11,7 milljarðar króna.

Ástand vega landsins er víða slæmt og viðhaldsþörfin mikil.
Ástand vega landsins er víða slæmt og viðhaldsþörfin mikil.

Fjármunum forgangsraðað til viðahalds og vetrarþjónustu

Í samantekt ráðherra sagði þá að auka þurfi viðhald vega. Fjárveitingar vegna þeirra þurfi því að nema um 10-11 milljörðum króna næsta ár, en í stað þeirra ríflega 8 milljarðar sem veittir voru í fyrra. Vaxandi kröfur séu einnig gerðar til þjónustu, sérstaklega vetrarþjónustu, sem og til vegmerkinga. Framlög til þessa hluta þurfi því að nema a.m.k. 5,5 milljörðum í ár, en þau voru 4,6 milljarðar í fyrra.

Stærstu útgjaldaliðir Vegagerðarinnar eru viðhald, þjónusta og framkvæmdir og mikil framkvæmdaþörf er í kerfinu. Á undanförnum áratug hefur fjármunum hins vegar verið forgangsraðað til viðhalds og vetrarþjónustu á kostnað framkvæmda.

Meðal þeirra framkvæmda sem þörf er að ráðast í eru framkvæmdir á Vestfjörðum í framhaldi af Dýrafjarðargöngum, jarðgangatengingu Seyðisfjarðar, endurbætur á Hringvegi og útrýming einbreiðra brúa á honum, en kostnaður við þetta er metinn á um 100 milljarða króna. Þá sé einnig afar brýnt að tvöfalda stofnleiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbraut, Suðurlandsveg og Vesturlandsveg um Kjalarnes en líkt og áður sagði er kostnaður við þær framkvæmdir metinn á um 60 milljarða króna.

Vegir liggja undir skemmdum

Viðhaldsþörfin er ekki síður sögð vera brýn. Undanfarin ár hafi fjárveiting til viðhalds vega verið umtalsvert lægri en þörfin og því liggi vegir víða undir skemmdum. Áætlað sé að það þurfi um 11 milljarða króna á ári „til að viðhalda vegakerfinu í ásættanlegu horfi og vinna upp viðvarandi skort.“ Uppsöfnuð viðhaldsþörf nemur hins vegar um 65 milljörðum króna.

Myndin sýnir framlög til vegagerðar á móti akstri á þjóðvegum.
Myndin sýnir framlög til vegagerðar á móti akstri á þjóðvegum. Kort/Aðsent

Uppsöfnuð þörf vegna bundins slitlags sé þá metin á 11,3 milljarða króna, enda sé ástand þeirra vega ekki síður slæmt á sumum stöðum. Hjólför séu sums staðar svo djúp „að hætta skapast í vatnsveðrum og holur eru hættulegar þar sem burðarlag er jafnvel farið að gefa sig.“ Árleg viðhaldsþörf vegna þessa er metin á um 2,8 milljarða króna, en fjárheimild síðasta árs hljóðaði upp á 4 milljarðar króna.

Þörfin fyrir styrkingar og endurbætur vega er einnig sögð mikil. Er árleg þörf metin á 3 milljarðar króna en uppsafnaður vandi hins vegar talinn vera nálægt 50 milljörðum króna. Fjárheimild á síðasta ári var hins vegar 1,3 milljarðar króna á síðasta ári. „Afleiðingar þessa eru dýrar því í stað viðhalds þarf jafnvel að endurbyggja veg frá grunni,“ segir í tilkynningunni.

 Þá sé viðhaldi malarvega einnig ábótavant og þörf á endurnýjun einbreiðra brúa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert