„Það tapa allir á klámvæðingunni“

Ungmenni vilja fá meiri fræðslu um kynlíf.
Ungmenni vilja fá meiri fræðslu um kynlíf. mbl.is/Thinkstockphotos

„Það tapa allir á klámvæðingunni, bæði strákar og stelpur,“ segir Þórður Kristinsson framhaldsskólakennari. Hann greindi frá rannsóknum sínum og Kolbrúnar Hrundar Sigurgeirsdóttur á kynlífsmenningu framhaldsskólanema með sérstakri áherslu á viðhorf og umræður unga fólksins um klám, á tómstundadeginum í dag.

Yfirskrift viðburðarins er #sjúkást og er haldinn í samstarfi við Stígamót þar sem málefni unglinga sem varða heilbrigð og óheilbrigð ástar-, vina- og fjölskyldusambönd eru rædd.  

Þær hugmyndir sem birtast í klámmyndum um kynlíf síast inn og hafa slæm áhrif á bæði kynin jafnvel þrátt fyrir að ungmennin viti að þarna birtast óraunhæfar hugmyndir um kynlíf. Stelpurnar upplifa ósanngjarna útlitspressu og þær fara í það að þóknast strákunum kynferðislega af ótta við að þeir gætu misst áhugann á þeim ef þær láta ekki undan kröfum þeirra. 

Strákarnir finna fyrir frammistöðukvíða og upplifa aukna pressu að vera alltaf graðir eins og klámmyndaleikarar. „Jafnvel þannig að sumir þeirra ganga með stinningarlyf á sér á djamminu ef vera skyldi að þeir myndu fara heim með einhverri,“ segir Þórður. Hann bendir á það skjóti skökku við að ungmenni á aldrinum 18 til 20 ára noti slíkt lyf af ótta við að ná ekki stinningu sökum ölvunar.  Hann tekur fram að hann telji þetta ekki algengt þó það þekkist innan strákavinahópa og hafi komið fram í rannsókninni. Þess ber að geta að þar sem rannsóknin er ekki stærri er ekki hægt að yfirfæra hana á heildina. „Það þyrfti að skoða þetta í miklu stærri rannsókn,” segir Þórður. 

Ungir karlmenn horfa mikið á klám

Klámáhorf ungmenna er mikið einkum hjá strákum og það þykir eðlilegra að þeir horfi meira á klám en stelpur. „Það þykir einfaldlega skrýtið að ungir karlar hafi ekki horft á klám og að sama skapi er þetta eitthvað sem allir hafa skoðað. Þetta hefur áhrif á kynhegðun þeirra,“ segir Þórður. 

Erindi Þórðar og Kolbrúnar byggir á tveimur rannsóknum annars vegar á  upplifun ungra kvenna á kynlífsmenningu í jafningjahópnum og hins vegar upplifun karla á því sama og þær bornar saman. Í báðum rannsóknunum tóku þátt í heildina 24 einstaklingar, 13 unglingstúlkur og 11 strákar.Rætt var við 13 unglingstúlkur en í hinni við 11 stráka.

Nemendur vilja fræðslu um kynlíf

„Allir töluðu um að kynfræðslu væri ábótavant í skólanum og krakkarnir vildu vita meira um kynlíf. Þau fá næga fræðslu um líffræðina og kynsjúkdóma. Við myndum vilja sjá aukna og virkari kynfræðslu á öllum skólastigum um samskipti, virðingu og mörk,“ segir Þórður. Hann segir rannsóknir á þessu sviði mikilvægar til að sporna mögulega við ranghugmyndum sem kunna að vera á reiki og veita ungu fólki tækifæri til að ræða um kynlíf í víðara samhengi og fræðast um það á einlægan og opinskáan hátt.

Niðurstöðurnar má einnig nýta til að styrkja þá sem vinna með ungmennum til þess að geta tekið umræðuna um þessi efni. „Það þarf einnig að rannsaka hvernig hinsegin ungmenni upplifa kynlífsmenningu og hver þeirra upplifun er,“ segir Þórður. 

Þórður Kristinsson og Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir.
Þórður Kristinsson og Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert