Tómi barnavagninn veitir von

Edda Þöll Hauksdóttir, stjórnarmeðlimur í Tilveru - samtökum um ófrjósemi, …
Edda Þöll Hauksdóttir, stjórnarmeðlimur í Tilveru - samtökum um ófrjósemi, hefur gengið í gegnum fimm smásjárfrjóvganir ásamt eiginmanni sínum, án árangurs. Hún segir ferlið erfitt en lítur björtum augum til framtíðar. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er svo táknrænt en á sama tíma erfitt því það þrá allir að fara út að ganga með barnið sitt í vagni,“ segir Edda Þöll Hauksdóttir, ritari Tilveru, samtaka um ófrjósemi. Samtökin stóðu fyr­ir gjörn­ingi í dag til að vekja at­hygli á ófrjósemi þar sem fólk gekk með tóma barna­vagna í Laugardalnum. Með gjörningnum vilja samtökin varpa ljósi á þann sársauka sem fólk sem glímir við ófrjósemi ber oft innra með sér og þá djúpu innri þrá eftir að eignast barn og geta gert jafn hversdagslega hluti eins og að fara með barnið sitt út í göngutúr.

Edda segir að það hafi verið afar lýsandi fyrir þær tilfinningar sem fylgja ferlinu að reyna að eignast barn með því að fara út að ganga með tóman vagn.

Samtökin Tilvera voru stofnuð árið 1989 en þetta er í annað sinn sem barnavagnaganga á vegum samtakanna fer fram. „Þetta var gert í fyrsta skipti í fyrra og gekk það vel að ákveðið var að gera þetta að árlegum viðburði,“ segir Edda.

Þarf kjark til að ganga með tóman barnavagn

Á annan tug manns gengu með tóma vagna í Laugardalnum í dag en Edda segir að það sé kannski ekki fjöldinn sem skipti mestu máli heldur hvað gangan táknar, enda getur það verið sárt og erfitt skref fyrir marga að ganga um með tóman barnavagn. „En þetta er svo ótrúlega táknrænn gjörningur.“

Í þessari viku stend­ur Til­vera fyr­ir vit­und­ar­vakn­ingu sem nefn­ist 1 af 6 en áætlað er að einn af hverj­um sex glími við ófrjósemi hverju sinni. Mark­mið vit­und­ar­vakn­ing­ar­inn­ar er að vekja at­hygli á ófrjó­semi og því sem fólk geng­ur í gegn­um þegar það þarf að nýta sér aðstoð tækn­inn­ar til að eign­ast barn og nauðsyn þess að all­ir hafi jafn­an aðgang að meðferðum og þurfi ekki frá að hverfa vegna kostnaðar.

Hópur fólks gekk um Laugardalinn í dag með tóma barnavagna …
Hópur fólks gekk um Laugardalinn í dag með tóma barnavagna til að vekja athygli á ófrjósemi. Árni Sæberg

Sálfræðiþjónusta verða innifalin í meðferðinni

Edda segir að meðal helstu baráttumála séu að niðurgreiðsla fáist fyrir fyrstu meðferð, en ekki einungis næstu þrjár meðferðir þar á eftir, og að sálfræðikostnaður verði niðurgreiddur. „Helst myndum við auðvitað vilja að sálfræðiþjónusta væri hluti af meðferðinni,“ segir Edda. Greiða þarf fullt verð fyrir fyrstu meðferðina, 455.000 krónur, og er lyfjakostnaður ekki innifalinn.

Edda þekkir ferlið vel af eigin raun, en hún eiginmaður hennar, Haraldur Þór Sveinbjörnsson, hafa reynt að eignast barn í fimm ár. „Lífið gekk sinn vanagang árið 2013 þegar við ákváðum að reyna að eignast barn,“ segir Edda. Þegar ekki gekk sem skyldi rúmu ári seinna ákváðu þau að leita til læknis þar sem ófrjósemin kom í ljós. „Þetta er ekki neinum að kenna og það er mikilvægt að pör séu í þessu saman,“ segir Edda og leggur áherslu á hversu mikilvægur stuðningur maka sé í ferlinu.

Fimm meðferðir á rúmu einu og hálfu ári

Frá því í júní 2015 til febrúar 2017 gengu Edda og Haraldur í gegnum fimm smásjárfrjóvganir. Þau eru enn barnlaus. „Þetta er mjög erfitt, það er ekkert fyrir alla að taka þetta svona þétt og þetta gengur alveg frá manni,“ segir Edda og lýsir því hvernig það er að vera uppfull af hormónum og fá neikvætt þungunarpróf. „Fyrst ertu spennt, svo reið. Þetta er tilfinningalegur rússíbani. Og svo kemur sjokkið eftir. Þá fer maður svo langt niður og þá er mikilvægt að hafa einhvern til að tala við, þess vegna væri gott að geta farið til sálfræðings. Það eru svo margir sem eru í þessu sem segja ekki frá þessu og það er ekki gott,“ segir Edda.

Hún segir einnig að óneitanlega fylgir mikil reiði ferlinu. „Maður hugsar: Af hverju ég? Af hverju er þetta ekki að ganga? Það er eins og lífið haldi áfram hjá öllum nema mér. Þú setur öll framtíðarplön á pásu og gefur þig alla í þetta og þetta er það eina sem skiptir máli, þessi ár sem maður er í þessu.“

Edda og Haraldur hafa samt sem áður haldið ótrauð áfram og þau sjá barneignir fyrir sér í framtíðinni. „Það er erfitt að horfa á barnavagninn sem stendur inni í herbergi. En það gefur manni von.“ Edda segir að kaupin á vagninum hafi í raun verið hvatning til að gefast ekki upp. „Hann segir mér að halda áfram. Ég mun setja barn einhvern tímann í þennan vagn.“

Í þessari viku stend­ur Til­vera fyr­ir vit­und­ar­vakn­ingu sem nefn­ist 1 …
Í þessari viku stend­ur Til­vera fyr­ir vit­und­ar­vakn­ingu sem nefn­ist 1 af 6 en áætlað er að einn af hverj­um sex glími við ófrjósemi hverju sinni. mbl.is/Árni Sæberg

„Það réttasta sem við höfum gert í þessu ferli“

Eftir síðustu meðferð fyrir ári síðan ákváðu Edda og Haraldur að taka sér hlé. „Við fengum strax spurningar frá fólki af hverju við séum ekki að halda áfram. En þessi pása er það réttasta sem við höfum gert í þessu ferli. Það eru mörg sambönd sem þola þetta ekki, en við nýttum pásuna í ferðalög og samveru.“ Parið gekk svo inn í nýja árið með því að gifta sig og horfir björtum augum til framtíðar. Þau hafa ekki tekið ákvörðun um hvort og hvenær næsta meðferð fari fram, en ákvörðunin verður rædd í rólegheitunum.

Í þessari viku beinist öll einbeitingin að vitundavakningunni en viðburðir hafa verið á dagskrá á hverjum degi það sem af er vikunni og á morgun, fimmtudag, stendur Tilvera fyrir viðburði á vinnustofunni hjá Hlín Reykdal skartgripahönnuði, Fiskislóð 75, undir yfirskriftinni „Lyklakippufjör.“

Hlín hefur hannað lyklakippu til styrktar samtökunum og á kippunni eru sex kúlur, fimm silfurlitaðar og ein fjólublá, sem táknar 1 af hverjum 6 sem glímir við ófrjósemi. Allur ágóði af sölunni rennur til félagsins og er notaður til þess a styrkja félagsmenn sem þurfa að sækja sér óniðurgreiddar meðferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert