Vopnaflutningar ekki arðbærari en aðrir

Vöruflutningaþota Air Atlanta af gerðinni Boeing 747-400.
Vöruflutningaþota Air Atlanta af gerðinni Boeing 747-400.

„Það að við séum að fljúga vísvitandi með hergögn sem er verið að áframflytja til annarra landa er algjörlega af og frá,“ segir Baldvin M. Hermannsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Air Atlanca Iceland.

Fram kom í umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks í gærkvöldi að íslensk stjórnvöld hafi brotið sáttmála Sameinuðu þjóðanna með því að veita leyfi fyrir flutningi Air Atlanta Iceland á hergögnunum.

Einnig kom fram að fyrirtækið hafi tekið þátt í vopnaflutningum frá ríkjum í Austur-Evrópu til Sádí-Arabíu sem undirverktaki flugfélagsins Saudia. Þaðan hafi vopnin verið flutt til Jemens og Sýrlands þar sem átök hafa geisað sem hafa bitnað mjög á almennum borgurum.

Ekki flogið með hergögn á þessu ári

Baldvin segir Air Atlanta Iceland ekki hafa flogið með nein hergögn það sem af er þessu ári. Á síðasta ári voru flugferðirnar innan við tíu talsins.

Hann segir það ekkert leyndarmál að fyrirtækið hafi í gegnum tíðina flogið með hergögn rétt eins og fjölmörg önnur flugfélög í heiminum og nefnir að um brotabrot af heildarflutningum fyrirtækisins sé að ræða. „Í þeim tilfellum sem við höfum verið að flytja hergögn höfum við einsett okkur að fara eftir ýtrustu lögum og reglum og í nánu samstarfi við yfirvöld til að tryggja að allt verði eins og best verður á kosið.“

Flugvél Air Atlanta.
Flugvél Air Atlanta.

Sótt um fjölda leyfa

Hann segir vopnaflutningana ganga þannig fyrir sig að fyrirtækið fái allar upplýsingar um farminn sjálfan, sendandann og móttakandann í gegnum svokallaða „end user statement“ sem er staðfesting á því hver endanlegur viðtakandi farmsins er. Þetta sé eitt af lagaskilyrðunum til að fyrirbyggja áframsölu.

Í framhaldinu eru pappírarnir sendir til flugmálastjórnar sem áframsendir þá til ráðuneytisins til umsagnar. Þar er annað hvort veitt jákvætt eða neikvætt svar. Allt er gert með vitund og samþykkis hins opinbera. Leyfi eru veitt hér heima, í landinu sem flogið er frá og í landinu þar sem lent er, auk þess sem sótt er um leyfi fyrir hvert land sem flogið er yfir.

Að sögn Baldvins er allt uppi á borðum og öllum lögum og reglum fylgt sem snúa að fyrirtækinu, sama hvort um sé að ræða íslensk lög eða alþjóðasamninga.

„Það að við séum að gera eitthvað öðruvísi en lög kveða á um, eða að við séum ekki að sinna okkar eftirlitsskyldu þá vísum við því algjörlega til föðurhúsanna,“ segir hann en nefnir að ef brotalamir koma í ljós varðandi flutningana sé sjálfsagt mál að skoða það í samráði við íslenska sérfræðinga og yfirvöld.

Baldvin M. Hermannsson.
Baldvin M. Hermannsson. Ljósmynd/Aðsend

Þrýsta ekki á stjórnvöld

Fram kom í kvöldfréttum RÚV að Air Atlanta Iceland hafi í gær ekki fengið heimild íslenskra stjórnvalda til vopnaflutninga til Sádi Arabíu. Baldvin segir það vera sjálfsagt mál ef eftirlitsaðilar vilji skoða umsóknarferlið frekar.

Spurður hvort fyrirtækið muni þrýsta á stjórnvöld um að fá að halda vopnaflutningunum áfram og jafnvel leita réttar síns í þeim efnum, segir Baldvin það ekki vera ætlunina ef stjórnvöld telja flutningana á gráu svæði.

„Ef brotalamir eru á þessum flutningum og þeir fara áfram, þrátt fyrir það sem kemur fram í samningum þá erum við sem flugfélag ekki í neinni stöðu til að fylgjast með því. Við erum að flytja fleiri þúsundir tonna í hverjum einasta mánuði,“ segir hann og treystir á því að hið opinbera verði þeim áfram innan handar.

„Ef þetta er eitthvað sem þarf að skoða betur þá er það hið allra besta mál hvað okkur varðar. Við eigum ekki farminn og við fáum jafnmikið greitt hvort sem við flytjum þetta eða eitthvað annað. Það eina sem við getum gert er að passa upp á að þegar við fáum farmbeiðni að öll leyfi séu til staðar og allt sé eins vel gert og hægt er,“ útskýrir Baldvin og bætir við að hagsmunirnir séu ekki stórir hjá fyrirtækinu þegar kemur að vopnaflutningum.

Sama greitt og fyrir bílavarahluti 

Aðspurður segir hann Air Atlanta Iceland fá alveg það sama greitt fyrir flutning hergagna og til dæmis flutning bílavarahluta. Samningurinn gildi um þrjár flugvélar til langs tíma þar sem borgað er fyrir hvern flugtíma óháð því hvað verið er að flytja. „Þetta eru engan veginn flutningar sem eru arðbærari heldur en aðrir. Það eru engir hagsmunir hjá okkur að þrýsta þessu í gegn, enda erum við ekki að reyna það.“

Baldvin leggur áherslu á að mannréttindabrot snerti jafnmikið við fyrirtækinu og öðrum og því sé það algjörlega af og frá að vísvitandi sé flogið með hergögn sem verið er að flytja áfram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert