Áhugi á spútnik-liðinu úr norðri

Lionel Messi og Aron Einar Gunnarsson.
Lionel Messi og Aron Einar Gunnarsson. mbl.is

„Ég held að mörgum þyki þetta svo áhugavert einvígi,“ segir Guðni Bergsson, formaður KSÍ, um gríðarlegan áhuga á leik Íslands og Argentínu á heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu í Moskvu þann 16. júní. Um fyrsta leik Íslands á mótinu verður að ræða en annan leik Argentínumanna. Guðni segir að leikurinn sé meðal þeirra sem hvað mest eftirspurn er eftir miðum á. „Þarna verður þetta frábæra knattspyrnulið Argentínu, sem hefur auðvitað unnið heimsmeistaratitilinn oftar en einu sinni og er með Messi og fleiri snillinga innanborðs, á móti spútnik-liðinu frá eyjunni í norðri sem er með öðruvísi leikstíl. Þetta einvígi, þar sem þessi lið og þessar heimsálfur í raun mætast, þykir áhugavert og margir vilja tryggja sér miða, ekki bara Íslendingar.“

Guðni segir að það sé auðvitað vitað að Íslendingar eru sérlega áhugasamir um leikinn en hann segir leikinn einn þann vinsælasta m.a. meðal starfsfólks UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu. „Það sýnir í raun og veru hvað við höfum náð að vekja á okkur jákvæða athygli og margir hafa því áhuga á því að sjá hvað íslenska liðið er að gera og hvernig því vegnar.“

En þessi mikli áhugi víða að gæti haft áhrif á möguleika Íslendinga til að tryggja sér miða á leikinn. „Það gæti gert það í seinni bylgju [miðasölunnar], það er þegar komið verður í ljós hve eftirspurnin er mikil,“ segir Guðni. „En þetta á allt eftir að koma í ljós. Við erum ekki alveg komnir með tölur um hvernig þetta allt saman lítur út og erum að bíða spennt eftir því.“

Guðni Bergsson, formaður KSÍ.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ. Ljósmynd/KSÍ

Miðað er við að Íslendingar geti tryggt sér 8% af seldum miðum en hversu nákvæmlega margir miðar það er á eftir að skýrast. Þegar hafa einhverjir sem sóttu um miða fengið staðfestingu á því en annars er von á að allt verði komið á hreint í þessu sambandi á næstu vikum.

Á þingi UEFA í Bratislava nýverið var endað á því að sýna margvísleg myndbrot. „Þar undir mátti heyra hú-ið okkar og víkingaklappið og sýndar voru myndir af okkar liði og okkar stuðningsmönnum,“ segir Guðni. „Ég held að sú stemning hafi náð til fólks almennt og að þessi sterka tenging, þessi gleði, fjölskylduskemmtun og fleira hafi vakið mikla athygli og gert það að verkum að mjög vel er fylgst með Íslandi og íslenskum stuðningsmönnum.“

- Þannig að það eru miklar væntingar um það að við gefum mótinu lit?

„Já, ég myndi halda það og við ætlum okkur að gera það innan vallar sem utan. Þetta er allt saman tilhlökkunarefni,“ segir Guðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert