Spyr um kjör í ráðuneytum og stofnunum

Þorsteinn Sæmundsson
Þorsteinn Sæmundsson mbl.is/Hari

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, hefur lagt fyrir fyrirspurnir til allra ráðherra ríkisstjórnarinnar þar sem hann óskar eftir upplýsingum um kjör í ráðuneytum og stofnunum þeirra. Spyr hann meðal annars um hvaða starfsmenn hafi fengið bifreiðar til afnota, hver séu meðalheildarlaun starfsmannanna og hver hæstu heildarlaun einstaka starfsmanns hafi verið.

Þá spyr Þorsteinn einnig um endurgreiddan aksturskostnað og hver heildaraksturskostnaður hvers ráðuneytis og hverrar stofnunar þess hafi verið á síðasta ári. Í fyrirspurn hans er einnig spurt um símakostnað, dagpeninga og fatapening starfsmanna á síðasta ári.

Kemur fyrirspurn Þorsteins í framhaldi af mikilli umræðu um endurgreiðslu á aksturspeningum til þingmanna.

Fyrirspurn Þorsteins í heild sinni, en hana sendi hann sem fyrr segir á alla ráðherra:

1. Hvaða starfsmönnum ráðuneytisins og stofnana á málefnasviði ráðherra lagði ríkið til bifreið árið 2017? Hvert var heildarverðmæti bifreiðanna? 

2. Hver voru meðalheildarlaun starfsmanna ráðuneytisins annars vegar og þessara stofnana hins vegar árið 2017? Hver voru hæstu heildarlaun einstaks starfsmanns ráðuneytisins annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar árið 2017? 

3. Fengu einhverjir starfsmenn ráðuneytisins og stofnana á málefnasviði ráðherra endurgreiddan aksturskostnað árið 2017 og hver var heildaraksturskostnaður ráðuneytisins annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar? Hver var hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns ráðuneytisins annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar? 

4. Fengu einhverjir starfsmenn ráðuneytisins og þessara stofnana endurgreiddan ferðakostnað í formi dagpeninga innan lands eða utan árið 2017 og hver var þá heildarferðakostnaður ráðuneytisins annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar? Hver var hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns ráðuneytis annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar vegna ferðakostnaðar innan lands annars vegar og erlendis hins vegar? 

5. Var símakostnaður greiddur fyrir einhverja starfsmenn ráðuneytisins og stofnana á málefnasviði ráðherra árið 2017 og þá fyrir hve marga starfsmenn ráðuneytisins annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar? Hver var heildarkostnaður ráðuneytisins og hverrar stofnunar vegna símakostnaðar? Hver var hæsta greiðsla vegna einstaks starfsmanns ráðuneytisins annars vegar og hverrar stofnunar ráðherra hins vegar? 

6. Fengu starfsmenn ráðuneytisins eða þessara stofnana greidda fatapeninga árið 2017? Hver var þá heildarkostnaður ráðuneytisins og hverrar stofnunar vegna fatapeninga? 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert