Hafa stundum farið aðrar leiðir

Norden.org

Stjórnvöld í Noregi vísa því á bug að þau hafi látið undan kröfum Evrópusambandsins um að hverfa frá tveggja stoða kerfinu sem samstarfið um Evrópska efnahagssvæðið (EES) hvílir á við innleiðingu á regluverki frá sambandinu og þannig grafið undan því.

Þetta hefur norski fréttavefurinn Abcnyheter.no eftir aðstoðarutanríkisráðherra Noregs, Audun Halvorsen, en vísað er til ummæla Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem féllu í umræðum á Alþingi í síðasta mánuði um EES-samninginn.

Bjarni sagði Íslendinga standa ítrekað frammi fyrir því að Evrópusambandið krefðist þess að Íslendingar samþykktu að sæta yfirstjórn stofnana sambandsins við innleiðingu á regluverki frá því í gegnum EES-samninginn sem Ísland ætti enga aðild að.

Með þessu væri vegið að tveggja stoða kerfinu sem felur í sér að EFTA/EES-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein heyra undir EFTA-dómstólinn og Eftirlitsstofnun EFTA við framkvæmd samningsins en ekki stofnanir Evrópusambandsins.

„Ekki hjálpar það þegar samstarfsþjóðir okkar EFTA-megin í samstarfinu hafa ákveðið að láta undan áður en við höfum komist að niðurstöðu. Þá stöndum við ein eftir með kröfuna um að byggt verði á tveggja stoða kerfi,“ bætti Bjarni ennfremur við.

Halvorsen segir norsk stjórnvöld meðvituð um að umræða eigi sér stað á Ísland um EES-samninginn líkt og í Noregi. Hann segir Norðmenn leggja áherslu á tveggja stoða kerfið en EES-samningurinn veiti hins vegar svigrúm til þess að fara aðrar leiðir.

„Við höfum þannig í sumum tilfellum fundið aðrar lausnir, annað hvort vegna þess að umrætt samstarf passar ekki inn í hið hefðbundna tveggja stoða kerfi eða vegna þess að önnur sjónarmið gera kröfu um það. Þetta á við um fá mál á afmörkuðu sviði.“

Halvorsen minnir ennfremur á að slíkar ákvarðanir þurfi að taka í sameiningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert